Ný flugvél fyrir Landhelgisgæsluna afhent í Kanada

  • Dash8_smidi_jun2008_1

Mánudagur 23.júní 2008

Tímamót urði í smíði nýrrar eftirlitsflugvélar Landhelgisgæslunnar föstudaginn 20.júní þegar vélin var afhent frá Bombardier, flugvélaverksmiðjunum í Toronto, sem smíðar flugvélina, til Field Aviation sem breytir henni í eftirlitsflugvél.

Flugvélin er af gerðinni Dash 8 Q 300 og nú tilbúin í farþegaútfærslu, máluð í litum Landhelgisgæslunnar og flugprófunum er lokið. Georg Kr.Lárusson, forstjóri Landhelgisgæsunnar, var viðstaddur athöfnina ásamt, Auðuni Kristinssyni, verkefnisstjóra, Höskuldi Ólafssyni, flugtæknistjóra og Geirþrúði Alfreðsdóttur, flugrekstrarstjóra.

Þessi nýja flugvél mun marka tímamót í allri starfsemi Landhelgisgæslunnar og þá sérstaklega að því er lýtur að möguleikum á að hafa yfirsýn yfir umferð og aðgerðir á hafinu í kringum Ísland. Með tilkomu hennar aukast og möguleikar á samstarfi við nágrannaþjóðir okkar til muna. Þegar hefur verið hafist handa við að breyta vélinni í eftirlitsflugvél en ráðgert er að breytingin taki um 12 mánuði. Breytingarnar eru mjög viðamiklar og miða að því að búa vélina tækjum til löggæslu, leitar og björgunar. Sænska strandgæslan hefur tekið tvær samskonar vélar í notkun og sú þriðja verður afhent þeim á næstu vikum. Flugvél Landhelgisgæslunnar er smíðuð í nánu samstarfi við Sænsku strandgæsluna.

Meðfylgjandi myndir af flugvélinni voru teknar við þetta tækifæri

Dash8_smidi_jun2008_1
Dash-8 Q300 eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar
Dash8_smidi_jun2008_4
Starfsmenn LHG ásamt fulltrúum Bombardier og Field Aviation
við afhendinguna

Fylgist með smíði vélarinnar hér

 

Myndir: Höskuldur Ólafsson

23.06.2008 SRS