Forstjórar strandgæslna hittast í Reykjavík

15. september 2008

Árlegur fundur forstjóra strandgæslna í Norrænu löndunum (Nordic Coast Guard Conference 2008) var haldinn í höfuðstöðvum Landhelgisgæslunnar við Skógarhlíð í morgun.

Á fundinum var efst á baugi að efla enn frekar samvinnu landanna og  upplýsingamiðlun. Breytingar eru yfirvofandi á siglingaleiðum Norður Íshafsins og nauðsynlegt er að æfa sameiginleg viðbrögð við leit og björgun á svæðinu.

Fundinn sátu Georg Kr. Lárusson, Halldór B. Nellett, Ágrímur Ásgrímsson og Gylfi Geirsson frá Landhelgisgæslunni, Nils Wang og Stefan Neubauer Andersen frá danska flotanum,  Jaakko Smolander og Mikko Hyyppä frá finnsku landamæragæslunni,  Arild-Inge Skram og Ottar Haugen frá norsku strandgæslunni auk  Hans Lindqvist, Staffan Kvarnström og Kristina Falk-Strand frá sænsku strandgæslunni.

Forstjóri norsku strandgæslunnar tók í lok fundarins við formennsku í samtökunum.

Fundurinn í ár var í styttra lagi þar sem fundargestir héldu að honum loknum til Grænlands til að sitja ráðstefnuna  Nord Atlantic Coast Guard Forum 2008 sem haldinn verður í Jakobshavn (Ilullisat) á Vestur Grænlandi með aðkomu tuttugu þjóða við Norður Atlantshaf.

Um Nordic Coast Guard

Að samstarfinu (Nordic Coast Guard Forum) standa Danir, Finnar, Norðmenn og Svíar auk Íslendinga, þ.e. yfirvöld í aðildarlöndunum sem hafa því hlutverki að gegna að annast landamæravörslu til sjávar, leit og björgun, viðbrögð við umhverfisslysum, fiskveiðigæslu og varnir og  öryggismál til sjávar. Stjórn samtakanna er í höndum yfirmanna þeirra stofnana sem fara með þessi mál í löndunum.  Upphaf NCGC má rekja til yfirlýsingar sem undirrituð var að loknum fundi norrænu dómsmálaráðherranna í Kiruna, í apríl 1998.

Stefnt er að því að halda nánu sambandi við nágrannaþjóðirnar, þróa og halda uppi öflugu samstarfi,  skiptast á þekkingu, efla rannsóknir og öryggi enn frekar í innlendum jafnt sem alþjóðlegum málaflokkum.