Varðskip á leið til aðstoðar færeyskum togara

  • Vardskip_hafis

Þriðjudagur 7. október 2008

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á mánudagskvöld beiðni um aðstoð frá færeyska togaranum Rasmus Effersöe sem er vélarvana 9-10 sjómílur undan A- Grænlandi og um 550 sjómílur norður af Akureyri. Um borð eru átta manns, sex í áhöfn, íssiglingaleiðsögumaður og vísindamaður. Áætlað er að varðskipið dragi skipið til Akureyrar.

Varðskip Landhelgisgæslunnar var samstundis undirbúið fyrir brottför og hélt úr Reykjavíkurhöfn um klukkustund síðar eða kl. 00:50 og siglir nú áleiðis á staðinn. Búist er við að varðskipið verði komið til bjargar um hádegi á fimmtudag. Að sögn skipverja er veður sem stendur gott á svæðinu, nokkur hafís en veðurspá góð.

Togarinn Rasmus Effersöe(http://www.pbase.com/regint/image/86418964) er 749 brúttólestir að stærð og 42,5 metra langur. Togarinn var á svæðinu til aðstoðar rússneska rannsóknaskipinu GEO ARCTIC og bíður rússneska skipið hjá togaranum eftir komu varðskipsins.

Umfangsmiklar loftslagsbreytingar hafa orðið orðið á síðastliðnum árum og hafa þær haft í för með sér aukna skipaumferð um hafísslóðir á Norður Atlantshafi. Leitar- og björgunarsvæði Landhelgisgæslunnar er 1.800.000 ferkílómetrar en efnahagslögsagan er 754.000 ferkílómetrar og ber Landhelgisgæslan ábyrgð á öllum leitar og björgunaraðgerðum innan svæðisins.

07.10.08/HBS

Myndina tók Guðmundur St. Valdimarsson