Kveðja frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar

Útför Gunnars Bergsteinssonar fyrrverandi forstjóra Landhelgisgæslu Íslands
fer fram frá Dómkirkjunni í dag, föstudaginn 31. október kl 1300.Gunnar_Bergsteinsson...

Hér má lesa minningargrein sem Ásgrímur L. Ásgrímsson yfirmaður Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar skrifar fyrir hönd starfsmanna.

---------

Gunnari Bergsteinssyni fyrrverandi forstjóra Landhelgisgæslunnar kynntist ég sem strákur, eitthvað um 8 ára aldurinn. Gunnar var þá forstöðumaður Sjómælinga Íslands og í huga mínum ákaflega merkilegur maður þar sem hann átti bátinn. Báturinn sem um ræðir var sjómælingabáturinn Týr sem stofnunin hafði fengið að láni frá Bandaríkjunum og svona gutta eins og mér þótti flott og mikið skip og sannfærður um að Gunnar ætti það.

Ég hafði fengið að koma með föður mínum í einhverskonar reynslu siglingu á bátnum eftir að hann kom til landsins og faðir minn útskýrði fyrir mér að þetta væri sjómælingabátur og að Gunnar Bergsteinsson væri menntaður sjóliðsforingi og sjómælingamaður. Hvorugt þessara hafði mikla þýðingu fyrir mig á þessum tíma en mörgum árum síðar átti ég eftir að feta í sömu spor og menntast bæði sem sjóliðsforingi og sjómælingamaður, í báðum tilfellum að miklum hluta til fyrir tilstuðlan Gunnars.

Það var síðan á menntaskólaárum mínum sem ég hafði frekari kynni að Gunnari. Hann var þá orðinn forstjóri Landhelgisgæslunnar en um leið Sjómælinga Íslands sem að hluta til höfðu sameinast þegar Gunnar var skipaður forstjóri Landhelgisgæslunnar. Ég var eins og gengur og gerist með menntaskólaunglinga, óviss með hvað tæki við að námi loknu og að áeggjan föður míns leitaði ég til Gunnars til að kynna mér þann námsferil og starfsferil sem hann hafði valið sér á yngri árum nokkrum áratugum áður. Gunnar brást vel við þessu og bauðst til að greiða götu mína ef hugurinn leitaði í þessa átt og staðfastur áhugi væri fyrir hendi. Það varð mér alveg ljóst af þessari viðkynningu þó að ég væri ungur að árum að Gunnar var staðfastur, traustur, yfirvegaður, agaður og dagfarsprúður maður. Ég bar mikla virðingu fyrir honum sem ég hef reyndar gert ætíð síðan. Gunnar varð mér í raun á þessum tíma ákveðin fyrirmynd þó að ég gerði mér grein fyrir því þá sem og nú að fáir gætu fetað í fótspor hans.

Gunnar kom því til leiðar að mér bauðst að hefja nám við sjóliðsforingjaskóla bandarísku Strandgæslunnar að stúdentsprófi loknu. Áður en ég hélt utan hafði hann ráðlagt mér ýmsa hluti útfrá sinni eigin reynslu. Þau ráð reyndust mér dýrmæt næstu fjögur árin á meðan ég upplifði þá reynslu sem hann hafði farið í gegnum í sjóliðsforingjaskóla Konunlega norska Sjóhersins á seinni hluta fimmta áratugarins. Gunnar reyndist mér mikil hvatning á meðan á námi stóð og fann ég að hann fylgdist vel með framgangi mála. Hann bauð mér ávallt að hitta sig þegar ég var staddur á Íslandi og lagði á það áherslu að ég fengi að kynnast starfsemi Landhelgisgæslunnar jafnframt því að hann vildi heyra af framgangi í námi og reynslu minni. Hann hvatti til og bauðst til þess þegar að námslok nálguðust að sjá til þess að ég fengi að starfa sem skipstjórnarmaður hjá bandarísku Strandgæslunni um tíma. Það varð reyndar úr og veit ég til að Gunnar beitti sér fyrir því að um skip og reynslu yrði að ræða sem að best gæti nýst í starfi hjá Landhelgisgæslunni þegar og ef til þess kæmi að ég hæfi störf hjá stofnuninni.

Ég hóf síðan störf hjá Landhelgisgæslunni seinni hluta árs 1988 og tók Gunnar vel á móti mér og greiddi götu mína í nýju umhverfi sem að mörgu leyti var mér mjög framandi eftir að hafa hlotið þjálfun og reynslu erlendis. Hann miðlaði mér af reynslu sinni frá því að hann hafði staðið í sömu sporum áratugum áður og enn á ný reyndust hans hvatning, ráðleggingar og umhyggja mér vel til að fóta mig áfram við nýjar og ókunnar aðstæður. Ég naut þeirrar ánægju og heiðurs að starfa undir stjórn Gunnars Bergsteinssonar í fimm ár áður en hann lét að störfum árið 1993 eftir margra áratuga farsælan starfsferil í þágu öryggismála sjófarenda sem og landsmanna almennt. Á þeim tíma veitti Gunnar mér ýmis tækifæri til þroska og þróunar í starfi. Hann bauð mér m.a. að hefja nám hjá Hafrannsóknarstofnun bandaríska Sjóhersins og læra þar sjómælingar og sjókortagerð sem síðar átti eftir að verða mitt aðal starf hjá Landhelgisgæslunni og Sjómælingum Íslands um árabil.

Ég átti þess kost á meðan Gunnar starfaði sem forstjóri Landhelgisgæslunnar og einnig í nokkur skipti eftir að hann lét að störfum að fá að heimsækja þau Gunnar og Brynju konu hans á heimili þeirra í Skipholtinu og síðar við Skúlagötu. Þau Brynja, sem ávallt stóð styrk við hlið eiginmanns síns, áttu ákaflega hlýlegt og fallegt heimili. Þau var mjög ánægjulegt heim að sækja. Gunnar hitti ég nokkur skipti undanfarin ár við ýmis tækifæri er tengdust starfsemi Landhelgisgæslunnar. Það var virkilega áhugavert og ánægjulegt að spjalla við hann og greinilegt að hann fylgdist vel með sínum fyrri starfsfélögum, Landhelgisgæslunni og þjóðmálum almennt.

Ég tel mig mæla fyrir munn okkar starfsmanna hjá Landhelgisgæslunni sem áttu þess kost að starfa með Gunnari, undir hans stjórn og almennt kynnast honum að þar hafi farið ákaflega heilsteyptur og traustur maður. Honum var annt um starfsmenn undir sinni stjórn, fastur fyrir en sanngjarn. Þrátt fyrir yfirvegaða framkomu var stutt í gamansemina og hann sá sannarlega spaugilegu hliðar málanna þegar svo bar við.

Fyrir hönd Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar og okkar starfsmanna stofnunarinnar votta ég eftirlifandi eiginkonu Gunnars, Brynju Þórarinsdóttur, fjölskyldu og ættingjum okkar innilegustu samúð. Hans verður minnst sem farsælum foringja okkar og hæfileikaríkum leiðtoga á breytingartímum í starfsemi Landhelgisgæslunnar.

Ásgrímur L. Ásgrímsson