TF-LIF sækir örmagna göngumann á Skarðsheiði

  • TF_LIF_Odd_Stefan

Sunnudagur 21. desember 2008

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF sótti í gærkvöldi mann á Skarðsheiði eftir að hann fannst af björgunarsveitum. Var maðurinn örmagna og ekki talinn fær um gang niður af heiðinni.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 21:15 beiðni um aðstoð þyrlunnar við að flytja manninn undir læknishendur. Var ekki mögulegt að bera manninn niður af fjallinu enda var hann einnig mjög kaldur. Veður var slæmt á svæðinu 15 m/sek og skafrenningur.

Að sögn þyrluáhafnar var björgunin erfið en gekk ágætlega, var undirbúningur og móttaka björgunarsveitarmanna, að þeirra sögn, til fyrirmyndar. Lent var á Reykjavíkurflugvelli kl. 22:50 þar sem sjúkrabifreið beið og flutti manninn á sjúkrahús.

Var maðurinn á göngu ásamt félaga sínum og urðu mennirnir viðskila þegar annar þeirra var of þreyttur til að halda áfram göngunni. Var björgunarsveitum gert viðvart og var félagi mannsins með nokkuð nákvæma staðsetningu félaga síns, einnig voru björgunarsveitarmenn í sambandi við manninn í gegnum síma.

21.12.2008/HBS