Mannréttindadómstóll Evrópu vísar frá kæru gegn íslenska ríkinu

Í fréttatilkynningu á vef Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað frá kærumáli Björns Guðna Guðjónssonar gegn íslenska ríkinu um bann við grásleppuveiðum í netlögum. Dómstóllinn lýsti kæruna ótæka þar sem hún þótti ,,augljóslega illa grunduð" (manifestly ill-founded), sbr. 3. mgr. 35. gr. mannréttindasáttmálans. Björn Guðni var sakfelldur í Hæstarétti Íslands fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa veitt grásleppu á óskráðum báti sínum í fiskveiðilandhelgi Íslands, án almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og leyfis til grásleppuveiða. Bar hann fyrir sig að hafa róið í netlögum tiltekinnar jarðar, en til þess hafi hann haft leyfi landeigenda. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að löggjafanum væri heimilt að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan nema með sérstöku leyfi. Var Birni Guðna gert að greiða 400.000 króna sekt í ríkissjóð og sæta upptöku á jafnvirði þeirra grásleppuhrogna sem hann hafði selt.

Björn Guðni kærði málið til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim grundvelli að með dómi Hæstaréttar hefði verið brotið gegn friðhelgi eignarréttar hans til slíkra veiða, sem er varinn með 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Íslenska ríkið hafnaði kröfum kæranda og krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi.

Ákvörðun Mannréttindadómstólsins er rökstudd og eru ekki gerðar athugasemdir við íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Fallist er á röksemdir stjórnvalda um að skýr lagaheimild hafi verið fyrir hendi að refsa kæranda fyrir veiðar án veiðileyfis og einnig að fiskveiðistjórnarkerfið feli ekki í sér takmarkanir sem brjóti gegn mannréttindum. Því sé komið á í þágu almannahagsmuna til að vernda fiskistofna og gangi ekki of langt til að ná því markmiði. Auk þess er hafnað að ákvörðun Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá því 24. október 2007, í máli Erlings Sveins Haraldssonar og Arnars Snævars Sveinssonar gegn íslenska ríkinu, sem varðaði lög um stjórn fiskveiða, hafi nokkur áhrif á þetta mál, en kærandi sendi álit hennar sem innlegg til að styðja kröfur sínar í þessu máli.

Sjá ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu 2. des. 2008 (pdf-skjal)