Fjórtán ár frá björgun átta mánaða gamals barns

Mánudagur 29. Desember 2008

Fyrir fjórtán árum síðan, eða þann 29. desember 1994 bjargaði þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SIF og þyrla varnarliðsins átta mánaða barni auk átta manna áhöfn hollenska flutningaskipsins Henrik B. sem var staðsett um 100 mílur út af Vestmannaeyjum. Er þetta í fyrsta og eina skiptið sem sigmaður Landhelgisgæslunnar hefur sótt svo ungt barn um borð í skip. Var barnið sett inn í búning sigmannsins og hann því næst hífður um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Skipstjóri Hendrik B. ákvað að skipið yrði yfirgefið eftir að brotsjóir riðu yfir skipið og ollu spjöllum í brú og vistarverum auk þess sem sjór komst í lestir skipsins sem voru nærri fullar af mjöli og settu á skipið slagsíðu. Skv. skýrslum Stjórnstöðvar og Flugdeildar LHG var TF-SIF í reglubundnu eftirlitsflugi þegar útkallið barst og var henni þá snúið til Vestmannaeyja þar sem tekið var eldsneyti en þar komu einnig um borð sigmaður og læknir en þeim var flogið til Vestmannaeyja með TF-SYN.

Meðfylgjandi mynd var tekin af Guðmundi St. Valdimarssyni þann 31. des 2004 á siglingu varðskipsins TÝS með skipið til Reykjavíkur. Þrír varðskipsmenn fóru yfir í skipið á léttbát varðskipsins í foráttu veðri en hægt var að koma mönnunum um borð í aftara lensportinu. Myndin er tekin um hádegið, þar sem mjög dimmt var yfir þessa daga sem siglingin tók. Ef vel er að gáð má sjá einn af varðskipsmönnunum á brúarvæng skipsins. Siglt var fyrir Garðskaga kl 0000 þegar árin mættust og varðskipsmenn sáu flugeldana við flóann frá Garði og upp á Akranes. Hendrik B var síðan lagt að bryggju við Sundahöfn á Nýársdagsmorgni.

Sjópróf voru haldin í Reykjavík þann 3. Janúar 2005. Í ljós kom að skemmdir á skipinu höfðu ekki orðið jafnmiklar og óttast var þegar áhöfn skipsins var bjargað um borð í þyrlur Landhelgisgæslu og varnarliðs.

Heimild; Starfsmenn Aðgerðasviðs LHG og gagnasafn mbl.is

HendrikB
Hendrik B. á siglingu til Reykjavíkur þann 31. desember 2004.
Mynd Guðmundur St. Valdimarsson