Fylgjumst vel með eldsneytisflutningum
Miðvikudagur 21. Nóvember 2009
Fjöldi erlendra flutningaskipa flytja í mánuði hverjum eldsneyti milli Norður Evrópu og Norður Ameríku og sigla þá í gegn um íslenska hafsvæðið. Í dag er eitt þessara skipa á siglingu um 20 sjómílur suður af Surtsey. Skip þetta heitir Torm Horizon og er skráð í Danmörku. Skipið er 180 metra langt, 29 þúsund tonn að þyngd og flytur bensín frá Mongstad í Noregi til New York. Reiknað er með, miðað við hraða þess nú, að það verði um 39 tíma á siglingu í gegn um íslensku efnahagslögsöguna.
Landhelgisgæslan reynir að fylgjast sérstaklega vel með þessum siglingum enda um viðkvæma flutninga að ræða og mikil hætta fyrir lífríki sjávar og stranda landins ef eitthvað kemur upp á.
Nýtt fjölnota varðskip Landhelgisgæslunnar er nú er í smíðum í Chile. Það er 4000 tonn að þyngd, er búið öflugum mengunarvarnabúnaði og hefur dráttargetu margfalt á við varðskipin ÆGI og TÝ sem eru 1400 tonn að þyngd. Nýja varðskipið er auk þess mun öflugra dráttarskip heldur en Ægir og Týr eru. Verður Landhelgisgæslan því mun betur í stakk búin til aðstoðar flutningaskipum sem þessum eftir að nýja varðskipið bætist í flotann sem vonast er til að verði snemma á árinu 2010.
21.01.2009/HBS
Myndina tók Marcel en kortið var teiknað af Stýrimönnum Skógarhlíð.
Leið olíuskipsins Torm Horizon um íslenska lögsögu á leið sinni til USA.
Næst landi fer skipið um 25 sml. suður af Vestmannaeyjum.