Tvö þyrluútköll eftir hádegi

Sunnudagur 25. janúar 2009

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti kl. 18:15 við Landspítalann í Fossvogi með ökklabrotinn mann sem sóttur var í Esju, við Þverfellshorn. Mjög erfiðar aðstæður voru á staðnum og var maðurinn hífður á börum um borð í þyrluna.

Var þetta annað útkall þyrlunnar í dag en kl. 15:00 barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni um aðstoð við að sækja slasaðan vélsleðamann í Landmannalaugar, sem fallið hafði af barði niður í gil. Var þyrlan nýlent með þann slasaða við Landspítalann þegar seinna útkallið barst.

25.01.2009/HBS