Landhelgisgæsla Íslands er 80 ára í dag og ný lög um stofnunina taka gildi

Laugardagur 1. júlí

Landhelgisgæsla Íslands á 80 ára afmæli í dag en stofndagur hennar miðast við 1. júlí 1926 er íslenska ríkið yfirtók formlega rekstur vélskipsins Þórs af Björgunarfélagi Vestmannaeyja. Saga landhelgisgæslu Íslendinga nær þó lengra aftur í tímann en þessi stofndagur var valinn af ríkri ástæðu enda hafði íslenska ríkið í félagi við Björgunarfélag Vestmannaeyja stundað landhelgisgæslu með Þór allt frá árinu 1922. Fallbyssur voru settar á skipið árið 1924 þar sem erlendir togaraskipstjórar hlýddu ekki skipunum frá óvopnuðu varðskipi.  Það ár tók Þór fjölda erlendra togara í landhelgi Íslands. Sumarið 1926 er einnig merkistími í sögu Landhelgisgæslu Íslands því þá eignuðust Íslendingar fyrsta nýsmíðaða varðskipið, gufuskipið Óðinn, sem kom til landsins 23. júní 1926 eða nokkrum dögum áður en íslenska ríkið yfirtók rekstur Þórs. 

Það er ógjörningur að segja sögu Landhelgisgæslunnar í svo stuttu yfirliti svo hér verður aðeins tæpt á helstu merkisviðburðum. Landhelgisgæslan er þekktust fyrir frækilegan framgang áhafna varðskipanna í þorskastríðunum þegar landhelgin var færð út, fyrst í 4 sjómílur árið 1952, því næst í 12 sjómílur árið 1958 og loks árin 1972 í 50 sjómílur og 1975 í 200 sjómílur. Kunnar eru sögur af ásiglingum og ásiglingartilraunum breskra freigáta og leynivopni Íslendinga, togvíraklippunum, sem notaðar voru til að ónýta veiðarfæri óvina með góðum árangri. Varðskip Landhelgisgæslunnar sem eru í notkun í dag tóku þátt í þorskastríðunum en það eru varðskipið Óðinn sem kom til landsins í janúar árið 1960, varðskipið Ægir, smíðað árið 1968, og Týr smíðaður árið 1975.  Miklar endurbætur og breytingar hafa verið gerðar á varðskipunum Ægi og Tý í fyrra og í ár og Óðni hefur verið vel við haldið.  Í áhöfn varðskips eru að jafnaði 18 manns, 1 skipherra, 3 stýrimenn, 3 vélstjórar, 1 bryti, 2 smyrjarar og 1 bátsmaður, 6 hásetar og 1 aðstoðarmaður í eldhúsi. Yfirleitt eru kafarar í áhöfn skipsins svo möguleiki sé á að skera aðskotahluti úr skrúfum skipa úti á rúmsjó og áhafnir skipanna hafa fengið þjálfun í að bregðast við alls kyns vá á hafi úti t.d. eldsvoða og halda reglulega æfingar í sjóbjörgun, með þyrluáhöfnum og öðrum viðbragðsaðilum.

Hálfrar aldar afmæli flugdeildar Landhelgisgæslunnar var minnst í fyrra en fyrsta flugvél Landhelgisgæslunnar, Katalínaflugbátur sem bar einkennisstafina TF-RAN, kom til landsins 10. desember árið 1955.  Fyrsta þyrlan kom síðan í apríl 1965 en hún bar einkennisstafina TF-EIR. Fyrr á þessu ári var þess jafnframt minnst að liðin eru 20 ár frá því að áhafnir björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar fengu lækna í lið með sér og eru áhafnir ávallt skipaðar flugstjóra, flugmanni, stýrimanni/sigmanni, flugvirkja/spilmanni og lækni.  Einnig er vert að minnast þess að brotið var blað í flugsögu Landhelgisgæslunnar er Landhelgisgæslan fékk nætursjónauka til notkunar í þyrlunum árið 2002 en þá jukust möguleikar flugáhafna til björgunar og flugs við erfiðar aðstæður til muna. Landhelgisgæslan hefur nú tvær þyrlur, Líf og Sif, í sinni þjónustu auk eftirlitsflugvélarinnar Synjar. Nýlega gerði Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, samning um leigu á þyrlu frá fyrirtækinu Air-lift og verið er að undirbúa leigu á annarri þyrlu.  Landhelgisgæslan mun þá hafa fjórar þyrlur til umráða en nauðsyn bar til að efla flugdeildina vegna brotthvarfs varnarliðsins á þessu ári. Ráðherrann hefur  kynnt þá stefnu ríkisstjórnarinnar að kaupa tvær sambærilegar þyrlur og Landhelgisgæslan á fyrir á næsta ári. Auk þess hefur hann og ríkisstjórnin lagt drög að endurnýjun flugvélar Landhelgisgæslunnar og kaupum á nýju varðskipi.  

Miklar framfarir hafa orðið á sjómælingasviði Landhelgisgæslunnar á undanförnum árum en þar hefur starfsfólkið sótt viðamikil námskeið í sjókortagerð í sérhæfðum tölvuforritum, fjölgeislamælir hefur verði tekinn í notkun á sjómælingaskipinu Baldri og fyrstu íslensku  rafrænu sjókortin hafa  litið dagsins ljós. Sjómælingar við Ísland eru mikið þjóðþrifamál enda verða farþega- og flutningaskip sem sigla við landið sífellt stærri og djúpristari og því afar mikilvægt að hafsvæðin umhverfis landið séu vel kortlögð. Mikilvægi sjómælinga birtist ekki síst í því að vera góð forvörn gegn umhverfisslysum sem skipsströnd geta valdið. 

 

Fyrr á þessu ári flutti Landhelgisgæslan höfuðstöðvar sínar í Björgunarmiðstöðina Skógarhlíð í Skógarhlíð 14 í Reykjavík.  Sú breyting hefur verið jákvæð og eflt samstarf við aðra viðbragðsaðila í landinu. Starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar eru fleiri en þar má nefna varðskýlið við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn, flugskýlið við Reykjavíkurflugvöll og smíðaverkstæði og varahlutalager við Fiskislóð í Reykjavík.

Landhelgisgæslan hefur í gegnum tíðina sinnt sínum verkefnum af bestu getu með þeim tækjakosti og fjármagni sem stofnunin hefur haft yfir að ráða. Mikil áhersla hefur verið lögð á þjálfun starfsfólks og vegna smæðar stofnunarinnar, í samanburði við sambærilegar stofnanir í nágrannalöndunum, er nauðsynlegt að hver og einn starfsmaður sé fjölhæfur og fær á fleiri en einu sviði.  Alls starfa um 140-150 manns hjá Landhelgisgæslunni og þeir eru í u.þ.b. 15 stéttarfélögum. Í mannauðnum felst styrkur Landhelgisgæslunnar og má með sanni segja að það sé lífsmáti að starfa hjá Landhelgisgæslunni enda er starfsmannavelta afar lítil.

Í dag er merkisdagur í sögu Landhelgisgæslunnar, ekki eingöngu vegna 80 ára afmælisins, heldur taka í dag gildi ný lög um Landhelgisgæslu Íslands nr. 52/2006.  Þau leysa af hólmi lög nr. 25/1967 um Landhelgisgæslu Íslands.  Tímabært var að endurnýja lögin enda hefur starfsemin breyst gífurlega á þeim 39 árum sem liðin eru frá því að gömlu lögin voru sett.  Ný lög um Landhelgisgæsluna lýsa betur verkefnum stofnunarinnar og hafa að geyma margvíslegar reglugerðarheimildir sem nauðsynlegar eru til að marka stofnuninni fastari umgjörð um starfsemina. 

 

Verkefni Landhelgisgæslunnar eru samkvæmt 4. gr. laga nr. 52/2006, öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga, löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra, leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó, leitar- og björgunarþjónusta við loftför, leitar- og björgunarþjónusta á landi, aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila, aðstoð við almannavarnir, aðstoð þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara, eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum, að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi, sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum, móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu. Í 5. gr. eru talin upp verkefni sem Landhelgisgæslunni er m.a. heimilt að gera þjónustusamninga um.  Þar er um að ræða fiskveiðieftirlit, fjareftirlit með farartækjum á sjó, almennt sjúkraflug og aðstoð við læknisþjónustu, mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu, sprengjueyðingu og hreinsun skotæfingasvæða, eftirlit með skipum á hafinu og aðstoð við framkvæmd vitamála, rekstur vaktstöðvar siglinga, móttöku og miðlun tilkynninga frá skipum, tolleftirlit og rannsóknir og vísindastörf á hafinu eftir því sem aðstæður leyfa.

Af þessari upptalningu má greinilega sjá hversu fjölbreytileg starfsemi Landhelgisgæslunnar er en nýju lögin endurspegla þann veruleika sem stofnunin býr við í dag.  Eins og fram hefur komið var starfsemi Landhelgisgæslunnar frá upphafi undir yfirstjórn dómsmálaráðuneytisins og er svo enn.  Ekki var stofnuð sérstök stofnun um starfsemina í upphafi heldur sá ráðuneytið sjálft um stjórnun hennar.  Ári eftir að Skipaútgerð ríkisins
 var stofnuð, árið 1930, var Landhelgisgæslan færð undir þá stofnun.  Það var ekki fyrr en árið 1952 sem Landhelgisgæsla Íslands,
 sem sérstök ríkisstofnun, var sett á laggirnar og var fyrsti forstjóri hennar Pétur Sigurðsson en hann hafði lokið sjóliðsforingjanámi frá Danmörku.  Gunnar Bergsteinsson tók við forstjórastarfinu árið 1981 og hafði hann sjóliðsforingjamenntun frá Noregi.  Árið 1993 var Hafsteinn Hafsteinsson skipaður forstjóri Landhelgisgæslunnar en hann og Georg Kr. Lárusson sem tók við forstjórastarfinu í byrjun árs 2005, eru báðir lögfræðingar að mennt.

Eins og sjá má af upptalningu verkefna Landhelgisgæslunnar hér að framan hefur Landhelgisgæslan haft í nógu að snúast eftir þorskastríðin en nú heyrast enn á ný háværar raddir sem krefjast þess að Landhelgisgæslan dragi fram klippurnar vegna svokallaðra sjóræningjaveiða á úthafsveiðisvæðum sem strandríki stjórna veiðum á.  Spurningin er hvort þorska- eða jafnvel karfastríð eru að brjótast út en að sjálfsögðu verður Landhelgisgæslan að fara að alþjóðalögum í eftirliti á úthafinu.  Þar gilda ekki sömu reglur og innan efnahagslögsögu Íslands þótt freistandi sé að bregðast við af hörku þegar skip frá fjarlægum ríkjum sem hafa enga veiðireynslu til að byggja á koma í veg fyrir skynsamlega nýtingu úthafsveiðisvæða og fiskveiðistjórnun. Íslenska ríkið verður að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir bættum úrræðum strandríkja gegn sjóræningjaveiðum.

Spennandi tímar eru framundan hjá Landhelgisgæslunni vegna nýrra áskorana sem stofnunin stendur frammi fyrir, á sviði björgunarmála og öryggisgæslu eftir brotthvarf Varnarliðsins, á sviði eftirlits á úthafinu með athöfnum sjóræningjaskipa og ekki síst á sviði mengunarmála með aukinni skipaumferð umhverfis og við landið.  Eitt af mikilvægustu verkefnum Landhelgisgæslunnar í framtíðinni er að vernda efnahagslögsögu Íslands gegn mengunarslysum og taka þátt í vinnu við að skipuleggja viðbrögð við þeim.

Landhelgisgæsla Íslands. Til hamingju með 80 ára afmælið!

 

Höfundur: Dagmar Sigurðardóttir er lögfræðingur og upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslu Íslands