Æfingar í Færeyjum og Reykjavík
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Sameiginleg leitar- og björgunaræfing Íslendinga, Færeyinga og Dana fór nýverið fram við Færeyjar. Þátttakendur í æfingunni voru stjórnstöð leitar- og björgunar í Færeyjum - MRCC Tórshavn, danska flotastjórnin, danska varðskipið TRITON, færeysku varðskipin BRIMILl og TJALDRIÐ, færeysku björgunarbátarnir ZISKA og LIV og að lokum v/s TÝR.
Í æfingunni var sett á svið leit og björgun á sjó þar sem leitað var að sex manns sem týnst höfðu í Djupen og Leirvíkurfirði í Færeyjum. Einnig var vettvangsstjórnun Færeyinga þjálfuð sérstaklega.
Æfingin þótti takast vel og til gamans má geta þess að v/s TÝR fann alla „hina nauðstöddu“.
Síðastliðið laugardagskvöld fór fram björgunaræfing með þátttöku Slysavarnarskóla sjómanna, björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar auk þyrlu LHG, TF-GNA . Æfð var notkun nætursjónauka við björgunarstörf og fór æfingin fram á Sundunum við Reykjavík.
Vakti æfingin talsverða athygli vegfarenda og höfðu margir samband við stjórnstöð LHG. Mun algengara er að sjá æfingar á ytri höfn Reykjavíkur í dagsbirtu á föstudögum en eins og fyrr sagði var æfð notkun nætursjónauka sem ekki er hægt að gera á öðrum tímum sólarhringsins.
Mynd af TF-GNA tók Guðmundur St. Valdimarsson.
09.02.2009
Léttabátur v/s TÝS „bjargar“ einni dúkkunni. Mynd Bogi Þorsteinsson.
Brimil og Tjaldrinu. Mynd Bogi Þorsteinsson.
Þessi er af einum „nauðstöddum“ í góðum höndum. Mynd Bogi Þorsteinsson.
Liv og Brimil, Mynd Jón Kr. Friðgeirsson.
Liv, Triton og Ziska. Mynd Jón Kr. Friðgeirsson.