Ritháttur á staðsetningum í baughnitum

Föstudagur 30. júní.

Undanfarið hefur gætt misskilnings vegna mismunandi ritháttar á staðsetningum sem eru gefnar upp í breidd og lengd í opinberum tilkynningum, lögum eða reglugerðum. Landhelgisgæsla Íslands hefur mælst til þess að ráðuneyti og opinberar stofnanir sameinist um að samræma rithátt á staðsetningum sem upp eru gefnar í baugahnitum til einföldunar fyrir notendur.

Landhelgisgæslan og Siglingastofnun Íslands, hafa nú sammælst um að umræddur ritháttur verði samræmdur innan stjórnsýslunnar og víðar þannig að ekkert fari á milli mála í þessum efnum. Einnig er mikilvægt að rithátturinn sé í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar að teknu tilliti til hefða sem þar ríkja, svo sem þeirri að í enskumælandi löndum eru brot úr mínútu rituð með punkti til aðgreiningar en með kommu í germönskum málum eins og íslensku, þýsku og Norðurlandamálunum. Landhelgisgæslan og Siglingastofnun leggja til að staðsetningar verði ritaðar í gráðum, mínútum og hlutum úr mínútu með teknu tilliti til þeirrar nákvæmni í framsetningu sem krafist er hverju sinni og sem hér segir:

1. Breiddargráður verði ávallt ritaðar með a.m.k. fjórum tölustöfum, t.d. 64°00'N. Lengdargráður verði ávallt ritaðar með a.m.k. fjórum tölustöfum, t.d. 06°15'V, og fimm tölustöfum þegar það á við, t.d. 135°00'V. Heiti breiddar (N eða S) eða lengdar (V eða A) verði til áherslu ávallt ritað með hástaf eins og tíðkast t.d. í ensku.

2. Ef aukastafur er notaður verði breiddar- og lengdargráður ritaðar þannig að mínútutáknið komi ávallt síðast, t.d.: 39°06,1'N, 14°00,2'V. Mínútur og tíundu hlutar úr mínútu verði ritaðar þannig: 67°05,6'N, 123°16,7'V eða ef notuð er meiri nákvæmni, t.d. 145°53,24'V.

3. Nauðsynlegt er að gera greinarmun á því hvort staðsetningar eru gefnar upp miðað við enska hefð (alþjóðlega) eða germanska (íslenska).

Dæmi á íslensku: 64°18,7'N, 035°25,3'V

Dæmi á ensku: 64°18.7'N, 035°25.3'W

Ennfremur er mælst til þess að stefnur eða miðanir séu ætíð gefnar upp með þriggja stafa tölu, t.d. 075°.

Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri sjómælingasviðs LHG