Horfur á norðurslóðum ræddar á fróðlegum fundi SVS og Varðbergs

  • Effersoe_GeoArctic

Auðlindir og gæsla á Norður Atlantshafi, vaxandi skipaferðir, auðlindanýting auk flutninga á sumrin milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins, voru á meðal þess sem rætt var í málstofu Samtaka um vestrænnar samvinnu (SVS) og Varðbergs í gær.

Frummælendur voru Björn Bjarnason, fyrrv. dómsmálaráðherra og alþm., sem ræddi um Stoltenberg-skýrsluna og stöðu Íslands, Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar og alþm, um Norræna samvinnu - nýtt upphaf, Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, úrskýrði þróun hafís, umhverfisbreytingar og fjarkönnun á norðurslóðum og Kristján Geirsson, deildarstjóri á sviði umhverfisgæða hjá Umhverfisstofnun fjallaði um gerð vákorts af N-Atlantshafi – hvernig samhæfð viðbrögð yrðu við bráðamengun sjávar. Að erindum loknum voru pallborðsumræður – og svöruðu frummælendur spurningum úr sal.

Í erindi Björns Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kom m.a. fram að Íslendingar eigi að vinna að fjölþjóðlegri svæðismiðstöð eftirlits á hafinu hér við land, undir forystu Landhelgisgæslu Íslands. Það sé í senn sjálfstæðismál og öryggismál að standa vörð um Gæsluna og störf hennar, þótt á móti blási í opinberum fjármálum. Hann telji, að forgangsraða eigi í hennar þágu, þegar hugað sé að varnar- og öryggishagsmunum Íslands.

Tillaga Stoltenbergs um að norrænu ríkin taki í sameiningu að sér loftrýmisgæslu á Íslandi hefur t.d. vakið mikla athygli. Benti Björn á að Íslendingar séu í fremstu röð á þessu sviði, hafi bæði tæki og mannafla, og að þjóðin geti sinnt öllum verkefnum, sem séu borgaralegs eðlis. „Stoltenberg sér slík verkefni aðeins vaxa og verða mikilvægari,“ Sjá erindi Björns Bjarnasonar í heild sinni hér fyrir neðan.

Norræn samvinna - nýtt upphaf var yfirskrift erindis Árna Þórs Sigurðssonar formanns utanríkismálanefndar og alþingismanns. Hann segir; „Það er rétt að undirstrika strax að um loftrýmisgæsluna almennt var pólitískur ágreiningur og hann er enn til staðar. Vel kann að vera að í hugum ýmissa sé geðþekkara að Norðurlöndin taki að sér þessa loftrýmisgæslu fremur en ýmis önnur ríki....[.]. En grundvallaratriði í þessu efni er samt hvort gæsla af þessum toga hefur yfirleitt einhvern tilgang.[...] Efnahagshrunið og –þrotið kallar á mikinn niðurskurð – og það er fráleitt annað en að varnarmálin verði hluti af því dæmi og raunar miklu fremur en margir aðrir málaflokkar“.

18.02.2009/HBS

Sjá erindi Björns Bjarnasonar.

Sjá erindi Árna Þórs Sigurðssonar.

Sjá glærur Ingibjargar Jónsdóttur,

Sjá glærur Kristjáns Geirssonar.