Fjarskipti tilkynningaskyldunnar á VHF færast á samræmda rás nr. 9

25. febrúar 2009

Vaktstöð siglinga - stjórnstöð Landhelgisgæslunnar mun frá 1. apríl nk. afgreiða fjarskipti tilkynningaskyldunnar á VHF frá öllum svæðum á samræmdri rás nr. 9.

Fjarskiptabúnaður stöðvarinnar hefur nú allur verið endurnýjaður. Sjófarendur eru eftir sem áður minntir á hlustvörslu á rás 16 -  sem neyðar- og útkallsrás. Frá 1. mars verður hægt að nota rás 9 en gert er ráð fyrir eins mánaðar aðlögunartíma. Tekur breytingin að fullu gildi þann 1. apríl nk.

Þar með verða talviðskipti færð af tvíhliða (duplex) rásum yfir á eina skiptitals (simplex) rás nr 9 - hringinn í kring um landið. Núverandi fyrirkomulag hefur þótt vera óþarflega flókið. Þess er vænst að breytingin einfaldi viðskipti sjómanna og vaktstöðvarinnar vegna tilkynningarskyldunnar, en til þessa hafa mismunandi rásir verið  í notkun eftir því hvar skip og bátar eru staðsettir.

Eftir breytinguna munu öll skip og bátar kalla á sömu rás vegna tilkynningarskyldunnar,  hvar sem þeir eru staðsettir.  Vænta má að breytingin stuðli að betri  hlustun eftir tilkynningarskyldum málefnum, auk þess sem talviðskipti heyrast almennt betur á skiptitals (simplex) rásum en tvíhliða (duplex). Auk þess geta aðrir bátar á rásinni aðstoðað ef með þarf.

250209/HBS