Viðbúnaður Landhelgisgæslunnar vegna mengunarslyss á Eskifirði

Þriðjudagur 27. júní 2006.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 14:32 frá Reykjavíkurflugvelli. Í áhöfn voru að þessu sinni tveir læknar en venjulega er einn læknir í áhöfninni.  Líf lenti á Neskaupstað kl. 16:06.  Þar voru fjórir sjúklingar teknir um borð og fluttir til Egilsstaða þar sem þyrlan lenti kl. 17:37. 

Á Egilsstöðum voru sjúklingarnir fluttir um borð í Syn, flugvél Landhelgisgæslunnar.  Um borð í henni var auk áhafnar greiningarsveit frá Landspítala háskólasjúkrahúsi sem samanstóð af 4 læknum og tveimur hjúkrunarfræðingum. Í Syn voru einnig þrír sérhæfðir sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Syn flutti fjóra sjúklinga á sjúkrahús í Reykjavík.  Syn lenti í Reykjavík kl. 19:22 en Lif kom til Reykjavíkur kl. 20:53.

Annar læknanna í áhöfn björgunarþyrlunnar Lífar fór með sjúkraflugvél Mýflugs til Akureyrar með sjúklinga.

Meðfylgjandi mynd tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður í flugdeild Landhelgisgæslunnar er björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Líf, kom með fjóra sjúklinga til Egilsstaða þar sem þeir voru fluttir yfir í flugvél Landhelgisgæslunnar, Syn.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.