TF-EIR bjargar konu í hlíðum Vífilsfells

  • TF-EIR

Mánudagur 27. apríl 2009

TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar var kl. 19:15 á sunnudag beðin um að taka þátt í leit að konu sem vitað var að væri í sjálfheldu í vesturhlíðum Vífilsfells. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði þá fengið fregnir af leitinni sem hafin var af Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu en ekki hafði borið árangur. Þyrlan var að koma úr gæsluflugi og fór samstundis á vettvang.

Fór þyrlan í hangflug yfir fjallinu og konunnar leitað. Fannst hún á syllu sem var um 10 metra löng og 1-2 metra breið. Stýrimaður seig með björgunarlykkju til konunnar, klæddi hana í lykkjuna og var hífður með hana í fanginu upp. Að sögn þyrluáhafnar gekk hífingin vel. Var konan orðin köld og þrekuð en að öðru leyti ómeidd.

Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli kl. 19:50 þar sem konan fékk almenna aðhlynningu.

270409/HBS

Myndina tók Guðmundur St. Valdimarsson