Hátíðleg athöfn við Faxagarð þegar varðskipið Ægir lagði að bryggju

Fimmtudagur, 28. maí 2009

Tekið var á móti varðskipinu Ægi með hátíðlegri athöfn þegar skipið lagði að bryggju við Faxagarð klukkan 9:30 í morgun. Hleypt var af þremur fallbyssuskotum við komuna og stóðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar heiðursvörð á Faxagarði. Tilefnið var að skipherrann á Ægi, Kristján Þ. Jónsson var að koma úr sinni síðustu skipherraferð en hann lætur af störfum nú um mánaðamótin. Auk hans eru tveir aðrir starfsmenn, þeir Benedikt Svavarsson yfirvélstjóri og Hafsteinn Jensson smyrjari að láta af störfum og voru starfsmenn Landhelgisgæslunnar að heiðra félaga sína með þessum hætti. Hafa þeir félagar starfað í hvorki meira né minna en níutíu ár hjá Landhelgisgæslunni. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar var um borð í Ægi þegar skipið kom til hafnar en hann fylgdi Kristjáni síðustu tvo daga hans sem skipherra. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar og fjölskyldur þeirra félaga fjölmennti á bryggjunni og var síðan gengið um borð þar sem tekið var á móti fólki með veitingum í þyrluskýlinu sem brytinn um borð, Guðjón H. Finnbogason reiddi fram af stakri snilld.

Aegir4_Georg_med_tolu
Birgir Þ. Jónsson, Marvin Ingólfsson, Dagmar Sigurðardóttir, Auðunn Kristinsson,
Jónas Þorvaldsson, Georg Kr. Lárusson, Svanhildur Sverrisdóttir og Halldór Nellett.

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hélt tölu og þakkaði Kristjáni, Benedikt og Hafsteini fyrir vel unnin störf í gegnum tíðina og afhenti þeim gjafir frá Landhelgisgæslunni með þakklæti fyrir þá ábyrgð, metnað og alúð sem þeir hafa lagt í störf sín. Þá færði áhöfnin Kristjáni til varðveislu siglingafána skipsins sem Kristján sigldi undir sína síðustu ferð.

Kristján Þ. Jónsson skipherra á varðskipinu Ægi hóf störf hjá Landhelgisgæslunni vorið 1965 þegar hann sem 17 ára ákvað að leysa kunningja sinn af, einn túr, á varðskipinu Ægi (gamla Ægi). Hann var fyrst skráður sem viðvaningur en varð fljótt fullgildur háseti. Það teygðist úr þessum eina túr á Ægi því hann var 412 daga á varðskipinu áður en hann fór í frí! Hann fór reyndar fyrst á sjó sem nemi aðeins 14 ára gamall polli, árið 1962 á varðskipið Sæbjörgu. Eftir þetta var ekki aftur snúið, þarna kviknaði neistinn og óslökkvandi áhugi Kristjáns fyrir björgunarstörfum.

Vardskip_Rvkhofn
Varðskipið Ægir siglir inn í Reykjavíkurhöfn, mynd Ægir Ólafs

Leið Kristjáns lá í Stýrimannaskólann þar sem hann lauk farmannaprófi 3. stigs vorið 1971. Daginn eftir að prófunum lauk var hann kominn um borð í Árvakur, skráður sem 3. stýrimaður. Sagði Kristján í móttökunni sem haldin var honum og samstarfmönnum til heiðurs í morgun, að útskriftarferðin hans hafi verið leigubíllinn frá Stýrimannaskólanum og niður að bryggju.

Varðskipadeildinni lauk Kristján árið 1972. Frá því að Kristján hóf störf hefur hann siglt á öllum varðskipum Landhelgisgæslunnar, starfað í flugdeild í áhöfnum loftfara, kafað og haft yfirumsjón með köfunarmálum, sinnt starfi yfirmanns gæsluframkvæmda sem í dag kallast framkvæmdastjóri aðgerðasviðs sem og kennt og miðlað starfsmönnum Landhelgisgæslunnar úr viskubrunni sínum. Á sínum langa og farsæla ferli hefur Kristján tekið þátt í fjölmörgum björgunaraðgerðum þar sem mörgum mannslífum hefur verið giftusamlega bjargað.

Aegir2_Heidursvordu

Heiðursvörður við komu varðskipsins

Á ferli sínum til sjós hefur Kristján tekið marga erlenda togara í lögsögunni fyrr og síðar og tekið þátt í mörgum björgunaraðgerðum, bæði sem stýrimaður og skipherra. Hann tók þátt í báðum þorskastríðunum þ.e. þegar fært var í 50 og 200 sjómílur þar sem átökin beindust fyrst og fremst að því að klippa veiðarfærin aftan úr erlendum togurum með hinum víðfrægu togvíraklippum. Þá hefur hann farið ófáar ferðirnar í Smuguna þar sem úthaldið gat orðið ansi langt og strangt.

Kristján leysti fyrst af sem skipherra á Ægi sumarið 1985 og varð fastur skipherra árið 1993. Hlutverk skipherra er fyrst og síðast að gæta öryggis áhafnar og skips auk þess að stjórna þeim aðgerðum og því starfi sem varðskip Landhelgisgæslunnar sinna.   Það þarf ekki að fjölyrða um þá ábyrgð sem lögð er á herðar skipherra við erfiðar aðstæður.  Kristján hefur sinnt þessu starfi af sinni ótrúlegu natni, kostgæfni og einstöku lund enda ber varðskipið Ægir og áhöfn þess skýran vott um þá alúð sem hann og áhöfnin öll leggur í starf sitt undir forystu Kristjáns. 

Hopur1_Aegir

Benedikt Svavarsson,  Hafsteinn Jensson,  Kristján Þ. Jónsson ásamt eiginkonum Benedikts og Kristjáns

Benedikt Svavarsson hefur starfað hjá Landhelgisgæslunni síðan í maí 1972 eða í 37 ár.  Hann lauk 2. stigi frá Vélskóla Íslands árið 1971.  Benedikt byrjaði á Árvakri en hefur á starfstíma sínum siglt á vel flestum varðskipum Landhelgisgæslunnar.  Hann var á varðskipinu Ægi daginn sem fært var út í 200 mílur og upplifði líkt og Kristján þorskastríðin tvö og fjölmargar togvíraklippingar.   

Árið 1997 færðist Benedikt yfir á sjómælingabátinn Baldur sem yfirvélstjóri og hefur verið þar samfellt síðan.  Óhætt er að segja að Benedikt sé einn af alduglegustu köfurum Landhelgisgæslunnar.  Á starfsferlinum hefur hann háð marga hildi í þeim efnum og tekið þátt í fjölmörgum björgunaraðgerðum sem kafari.  Ein sú minnisstæðasta er björgun um borð í Gunnjóni árið 1983 en sú björgun er ein sú erfiðasta sem reykkafarar Landhelgisgæslunnar hafa tekið þátt í. 

Aegir3_komaumbord

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar, Kristján Þ. Jónsson, skipherra, Gunnar Örn Arnarson, stýrimaður, Guðmundur St. Valdimarsson, bátsmaður, Óskar Ármann Skúlason bátsmaður, Linda Ólafsdóttir, háseti og Víðir S. Björnsson, háseti

Hafsteinn Jensson hóf fyrst störf hjá LHG árið 1985 og starfaði þá í stuttan tíma á varðskipinu Óðni.  Hann kom svo aftur til Gæslunnar árið 2001 og hefur verið smyrjari fyrst á Óðni og síðan Ægi frá þeim tíma.  Kom hann inn með víðtæka reynslu af sjómennsku sem hefur nýst vel.

Landhelgisgæslan þakkar þeim öllum vel unnin störf og ánægjulega samfylgd í gegn um tíðina og óskar þeim alls hins besta um ókomin ár.

Aegir_Kristjan_fjolskylda

Árni Sæberg, ljósmyndari myndar Kristján Þ. Jónsson ásamt fjölskyldu sinni

Aegir6_Styrimenn_flugstjori

Páll Geirdal, yfirstýrimaður, Hreggviður Símonarson, stýrimaður, Magnús Örn Einarsson, stýrimaður, Höskuldur Ólafsson, tæknistjóri og Henning Þ. Aðalmundarson, stýrimaður bíða komu varðskipsins.

Aegir7_Faninn

Varðskipið Ægið komið að bryggju

Myndir Hrafnhildur Brynja, uppl.fulltrúi