Mikilvægi varðskipanna á hafsvæðinu umhverfis Ísland

Föstudagur 19. júní 2009

Varðskip Landhelgisgæslunnar, Ægir og Týr eru ákaflega mikilvæg í eftirliti, öryggis-, og löggæslu á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Verkefni varðskipanna eru afar fjölbreytt og í reglubundnum ferðum þeirra er meðal annars farið til eftirlits um borð í skip og báta, aðstoð veitt bátum og skipum í vandræðum og hlutir fjarlægðir sem eru á reki í sjónum og geta skapað sjófarendum hættu. Einnig er þjálfun áhafna fastur liður og koma þá þyrlur Landhelgisgæslunnar oft á vettvang og æfð er samhæfing áhafnar varðskips og þyrlu.

Myndir_vardskipstur_001

Á leið til eftirlits. © Árni Sæberg

Varðskipið Ægir kom í lok vikunnar til hafnar eftir að hafa verið við gæslu- og eftirlit á Suðvestur-, Vestur- og Vestfjarðamiðum fram að sjómannadegi. Var þá haldið til gæslu á Norðvestur- og Norðurmiðum austur af Grímsey. Farið var til eftirlits í þrjátíu íslensk skip og voru í kjölfarið gefnar út níu áminningar þar sem skip voru ekki með búnað í lagi eða einstaklingar úr áhöfninni voru ekki með skírteini eða næg réttindi. Einnig voru gefnar út fjórar kærur þar sem vantaði í áhöfn, upp á réttindi eða haffæri var útrunnið. Sjö skyndilokanir voru gefnar út vegna smáfisks í samráði við vakthafandi fiskifræðing Hafrannsóknastofnunar. Einnig var farið um borð í þrjú frístundafiskiskip (BOBBY-báta) og könnun gerð á réttindamálum um borð.

Einnig var skútu á Patreksfirði veitt aðstoð við að komast til hafnar þar sem vél skútunnar hafði ofhitnað. Skipstjóri hennar treysti sér ekki til að fara að bryggju á seglum. Fór léttabátur varðskipsins skútunni til aðstoðar og færði hana að bryggju á Patreksfirði um klukkustund eftir að beiðni barst um aðstoð. Var þá varðskipið til akkeris undan Vatneyri.

Á sjómannadaginn var varðskipið við höfn á Flateyri og var almenn ánægja með veru varðskipsins á staðnum og þátttöku áhafnarinnar í hátíðarhöldunum. Heimamönnum bauðst að fara í siglingu og þáðu 147 manns boðið.

Sjómannadagshelgi á Flateyri 2009 - 3

Varðskip og þyrla Landhelgisgæslunnar á Flateyri © Gunnar Örn Arnarson

Síðari hluta ferðarinnar var siglt að Grímsey og fór helmingur áhafnarinnar í land og komu síðan níu börn og unglingar frá Grímsey um borð til að skoða skipið. Var áhöfninni boðið á tónleika með Rökkurkórnum úr Skagafirði og voru menn mjög ánægðir með tónleikana.

Þótti ferð Ægis ganga afar vel. Miklu var afkastað í ferðinni enda voru góð veðurskilyrði nánast allan túrinn.