TF-LÍF tekur þátt í björgun á Geitlandsjökli

Laugardagur 27. júní 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 18:28 beiðni í gegn um Neyðarlínuna 112 þar sem óskað var eftir aðstoð þyrlu við björgun á Langjökli. Hafði einstaklingur fallið niður í sprungu og var beðið um að undanfarar frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu á höfuðborgarsvæðinu kæmu með í þyrlunni. Voru jafnframt boðaðar út björgunarsveitir í Borgarfirði og á Akranesi.

TF-LIF beið eftir björgunarsveitarmönnum en fór í loftið 19:45. Ferjaði þyrlan þrjá undanfara beint á Geitlandsjökul, og sótti síðan til viðbótar þrjá aðra frá hóp sem var á leiðinni með bíl og ferjaði þá einnig á slysstaðinn. Voru undanfarar frá Björgunarsveitunum Ok og Brák í Borgarfirði fyrstir á staðinn eða um kl. 20:00.

Var manninum bjargað úr sprungunni og hann fluttur um borð í TF-LÍF um kl. 21:00. Lenti þyrlan við Borgarspítala kl. 21:20.

TF_LIF_Odd_Stefan

TF-LÍF, úr myndasafni LHG. Ljósmyndari Odd Stefán.