Tíu útköll sprengjusérfræðinga á tíu dögum

Mánudagur 29. júní 2009

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur haft í mörg horn að líta síðastliðnar vikur en fyrir utan þeirra daglegu störf höfðu þeir rétt fyrir helgi farið í tíu útköll á tíu dögum þar sem meðal annars fannst tundurdufl, dýnamít á víðavangi, sprengjur á hafsbotni og í fjallshlíðum.

Síðasta útkallið barst á fimmtudag þegar sprengjusérfræðingar voru kallaðir til þegar göngufólk fann sprengju við Geithúsárgil í Reyðarfirði þar sem í seinni heimsstyrjöldinni var æfingasvæði breskra hermanna. Fólkið gerði sprengjusveitinni viðvart og sendu þeim myndir af sprengjunni. Töldu sprengjusérfræðingar að um væri að ræða „mortar“ eða sprengju sem sennilegt er að hafi verið skotið úr sprengjuvörpu fyrir um sjötíu árum síðan en hún ekki sprungið, nokkur hætta stafaði því af henni. 

Fóru sprengjusérfræðingar á staðinn og var sprengjunni eytt á öruggu svæði.

Sjá frétt sem birtist á RUV 26. júní sl.

290609/HBS