TF-LÍF og lögregla aðstoða erlenda ferðamenn á Markarfljótsaurum
Þriðjudagur 30. júní 2009
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LIF fór á sunnudag í þjóðvega- og hálendiseftirlit með lögreglunni á Hvolsvelli. Fyrirhugað var um tveggja klukkustunda flug og var farið í loftið frá Reykjavíkurflugvelli um kl. 16:00. Vegna ýmissa atvika og mikils fjölda fólks og farartækja á leiðinni teygðist allverulega úr fluginu sem stóð fram yfir miðnætti. Kom þyrlan meðal annars að erlendum ferðamönnum, tólf manna fjölskyldu sem var rammvillt í bifreið á Markarfljótsaurum.
Hófst eftirlitið í Fljótshlíð og var síðan haldið um Emstrur, Hvanngil, Mælifellssand, Hólaskjól að Veiðivötnum þar sem þyrlan lenti og var haft tal af skálavörðum. Var síðan haldið í Landmannalaugar og Hvanngil þar sem einnig var lent og spjallað við skálaverði. Síðan var haldið í Emstrur en þegar komið var niður á Markarfljótsaura rétt neðan við Þórsmörk sást fólk við Econoline bifreið veifa þyrlunni. Lenti þyrlan skammt frá fólkinu og var drepið á þyrlunni. Reyndust þarna vera erlendir ferðamenn, tólf manna fjölskylda sem var rammvillt. Sögðust þau vera á leið í Landmannalaugar. Bílstjóranum var bent á að utanvegakstur væri ekki leyfilegur og varð það til þess að hann féllst á að snúa frá ferð sinni í Landmannalaugar. Lögreglumaðurinn varð eftir í bílnum og leiðbeindi ökumanni varðandi aksturinn þar til komið var að öruggri akstursleið.
Sýnir þetta dæmi hversu nauðsynlegt er að hafa eftirlit úr lofti meðan á aðalferðatímanum stendur. Eru ferðamenn oft illa útbúnir og ofmeta getu ökutækja sinna.
300609/HBS
TF-LÍF.
Mynd Árni Sæberg.