TF-SIF greinir mengun á Faxaflóa með tækjabúnaði sem veldur byltingu í umhverfisvernd

Miðvikudagur 8. júlí 2009

Við eftirlits- og æfingaflug TF-Sifjar flugvélar Landhelgisgæslunnar í gær sást olíumengun á Faxaflóa með tækjabúnaði eftirlitsflugvélarinnar sem kallast „Side Looking Radar“ ( SLAR). Gerir búnaðurinn vélinni kleift að staðsetja mengun, greina hvers eðlis mengunin er, stærð svæðisins, þykkt olíunnar og magn. Einnig var tekið var upp myndskeið af menguninni.

Við komu til Reykjavíkur var Umhverfisstofnun gert viðvart og þeim send gögn sem aflað var í eftirlitinu. Samkvæmt sérfræðingum Umhverfisstofnunar virðist magn mengunarinnar ekki vera þess eðlis að grípa þurfi til aðgerða. Uppruni hennar er óljós, gæti komið frá skipsflaki en málið verður rannsakað nánar, stefna og lega mengunarinnar bendir þó til að ólíklegt sé að hún komi frá skipi á siglingu. Að þeirra hefur lengi verið beðið eftir tækjabúnaði eins og þeim sem er í TF-Sif, gögn þau sem hann veitir eru í raun bylting á þessu sviði og margfaldar getu til að finna ólöglega losun olíu á hafsvæðinu umhverfis Ísland.

TF-SIF skapar okkur Íslendingum kost á að fylgjast með hafinu umhverfis Ísland með allt öðrum og nákvæmari hætti en verið hefur og veldur gjörbreytingu í auðlindagæslu og umhverfisvernd.

Nánar um búnað vélarinnar hér.

SIF_eftirlit

©Árni Sæberg

080709/HBS