Varðskip í Síldarsmugunni

Þriðjudagur 25. ágúst 2009

Varðskipið Týr er nú á heimleið frá Noregi en skipið lagði af stað frá Íslandi fyrir 10 dögum síðan. Tilgangur ferðarinnar var annars vegar að draga tvo dýpkunarpramma, Mikael og Gretti til Stamsund á Lofoten í Noregi. Hins vegar var ferðin nýtt til eftirlitsstarfa á Norður Atlantshafi og er varðskipið nú á leið í Síldarsmuguna þar sem eru um þrjátíu skip að veiðum. Með því að senda íslenskt varðskip í Síldarsmuguna minnir Landhelgigæslan á rétt Íslendinga á þessu hafsvæði og uppfyllir jafnframt alþjóðlegar eftirlitsskyldur sem aðili að Norðaustur Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC).

TYR_Til_Noregs
Týr siglir úr höfn með dýpkunarprammana í togi. Mynd Jón Kr. Friðgeirsson.

Ístak ehf. hafði samband við Landhelgisgæsluna í maí til að athuga hvort Landhelgisgæslan gæti dregið dýpkunarpramma til Noregs vegna hugsanlegs verkefnis þar. Ístak skoðaði málið vegna útboðs á hafnarframkvæmdum í Stamsund á Lofoten í Noregi. Landhelgisgæslan tók vel í erindið en ljóst var frá upphafi af hálfu Landhelgisgæslunnar að hún myndi aðeins taka að sér verkefnið ef enginn innlendur aðili gæti sinnt því.

Í júlí varð síðan ljóst að Ístak hafði fengið þetta verkefni og sá Landhelgisgæslan margvísleg tækifæri í að sinna því.

TYR_braela
Bræla á leið til Noregs. Mynd Jón Kr. Friðgeirsson
TYR_skodun_prammi
Varðskipsmenn kanna hvort ekki sé í lagi með prammana
Mynd Jón Kr. Friðgeirsson

Í fyrsta lagi nýttist ferðin frá Noregi til eftirlits í Síldarsmugunni en íslenskt varðskip hefur ekki komið þangað í 2-3 ár. Með því að senda íslenskt varðskip í Síldarsmuguna minnir Landhelgigæslan á rétt Íslendinga á þessu hafsvæði og uppfyllir alþjóðlegar eftirlitsskyldur sínar sem aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu (NEAFC).

Í öðru lagi fengust töluverðar tekjur fyrir þetta verkefni, tekjur sem koma Landhelgisgæslunni mjög vel í erfiðu árferði.

Í þriðja lagi gat Landhelgisgæslan með þessu móti aðstoðað íslenskt fyrirtæki í að afla sér verkefna erlendis en enginn annar íslenskur aðili gat dregið prammana.

TYR_Stamsund
Á siglingu í Noregi. Mynd Jón Kr. Friðgeirsson

Einnig sótti varðskipið heim Sortland við Lofoten en þar er flotastöð norsku strandgæslunnar, en mikið og gott samstarf hefur ætíð verið meðal íslensku og norsku strandgæslnanna.

Tyr_Sortland

Baksíða dagblaðsins Vesterålen í Sortland, 25. ágúst 2009

Tyr-visit_Sortland

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar með starfsmönnum norsku strandgæslunnar í Sortland

250809/HBS