Misskilningur við útkall á Herðubreið

Slysavarnarfélagið Landsbjörg vill koma á framfæri að við útkall á Herðubreið, laugardaginn 22. ágúst 2009, þar sem maður varð bráðkvaddur á fjallinu, kom upp atvik sem orsakaði misskilning varðandi aðkomu Landhelgisgæslu Íslands að aðgerðinni.

Því hefur verið haldið fram að LHG hafi neitað að senda þyrlu á staðinn en svo var ekki. Einungis var verið að meta stöðuna og leita bestu leiða til að leysa verkefnið með eins öruggum og skilvirkum hætti og kostur var. Landsstjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefur farið yfir atburðarrásina og þykir í framhaldinu ljóst að þarna hafi mannleg mistök átt sér stað; farið var út fyrir faglega vinnuferla og misbrestur varð í samskiptum þeirra sem að komu.

Beiðni um aðstoð þyrlu LHG í aðgerðum björgunarsveita getur komið frá lögreglu, Neyðarlínu eða í samráði við bakvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þeir ferlar eru þrautreyndir og byggja á forræði aðila á yfirstjórn aðgerða og reynslu aðila af aðgerðum. Það er því á hæsta máta ófaglegt að leita beint til ráðherra dómsmála og blanda henni í aðgerð sem var í vinnslu.

Landhelgisgæsla Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa árum saman unnið að björgunarstörfum á landi og sjó. Á síðustu árum, með öflugri tækjakosti LHG, hefur samstarf þetta eflst til muna. Nauðsynlegt er að björgunarsveitir og lands-og svæðisstjórnir séu í góðu samstarfi við LHG og noti þá ferla sem þegar hafa sem hafa verið búnir til í samstarfi þessara aðila. Það kemur í veg fyrir misskilning af þessu tagi og tryggir fagleg viðbrögð.