Danskt og norskt varðskip í Reykjavíkurhöfn vegna sameiginlegrar björgunaræfingar

Föstudagur 25. september 2009

Danska varðskipið Hvidbjörnen liggur nú samsíða norska varðskipinu Andernes við bryggju að Ægisgarði í Reykjavík en skipin eru stödd hér á landi í tilefni af árlegum fundi forstjóra strandgæslna í Norrænu löndunum, Nordic Coast Guard og aðalfundi North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF), samtökum strandgæslustofnana á Norður Atlantshafi en fundirnir verða haldnir á Akureyri í næstu viku. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar hefur annast formennsku í samtökunum NACGF síðastliðið ár en um áttatíu manns frá tuttugu aðildarþjóðum sækja fundinn sem haldin verður á hótel KEA.

Andernes_Hvidbjornen

Umfangsmikil björgunaræfing fer fram í tengslum við aðalfund NACGF en þátttakendur í henni verða norska varðskipið Andernes, danska varðskipið Hvidbjörnen, varðskipið Týr, þyrla og eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, starfsmenn ýmissa stofnana og samtaka sem eru í áhöfn Samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð, Vaktstöð siglinga / Stjórnstöð LHG, starfsmenn bandarísku strandgæslunnar, björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Eyjafjörð auk starfsmanna Carabbien Crusise Lines á Bretlandi sem munu sinna hlutverki skemmtiferðaskips sem rekst á grynningar í Norður-Atlantshafi.

Fyrir Íslands hönd sitja fulltrúar Landhelgisgæslunnar fundinn , en að auki koma meðal annars fulltrúar frá Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Utanríkisráðuneyti, Ríkislögreglustjóra, Varnarmálastofnun og Umhverfisstofnun.

Andernes_b

Landhelgisgæslan var einn af stofnfélögum samtakanna en að þeim standa tuttugu stofnanir sem annast strandgæslustörf þjóðanna sem þau tilheyra. Þessar þjóðir eru;  Belgía, Bretland, Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Holland, Ísland, Írland, Kanada, Litháen, Lettland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland. Í mörgum tilvikum eru þetta sjóherir landanna, í sumum tilvikum strandgæslur sem heyra undir sjóherina og  í enn öðrum sérstakar strandgæslustofnanir. 

Tilgangur samtakanna er að greiða fyrir samvinnu ofangreindra stofnana.  Í því felst meðal annars að samtökin munu leitast við að skiptast á skipaumferðarupplýsingum, bæði hvað varðar fiskiskip sem og önnur skip, þ.á.m. olískip og skip sem grunuð eru um ólöglegt athæfi á einn eða annan hátt.  Einnig samstarf á sviði leitar og björgunar, almenns eftirlits á hafinu, þjálfunar, tæknilegra upplýsinga og svo mætti lengi telja.  Samtökin eru í raun stofnun til að gæta að auknu öryggi á Norður Atlantshafi en allir þeir undirþættir sem samtökin starfa að,  geta í raun fallið undir það sem erlendar stofnanir á þessu sviði nefna „Maritime  Security“.

250909/HBS

Myndirnar tóku Jón Kr. Friðgeirsson og Jón Páll Ásgeirsson.