Árlegur fundur samtaka strandgæslna og sjóherja á Akureyri - umfangsmikil björgunaræfing fer fram á sama tíma
28. september 2009
Samtök strandgæslna og sjóherja tuttugu þjóða á Norður Atlantshafi - North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF) halda aðalfund sinn á Akureyri dagana 29. september til 2. október nk. Formennska samtakanna hefur sl. ár verið í höndum Georgs Kr. Lárusson forstjóra Landhelgisgæslunnar eða frá síðasta aðalfundi sem haldinn var á Vestur Grænlandi í september 2008. Fjölmiðlum er boðið að senda fulltrúa sína til að sitja fundinn sem haldinn er á hótel KEA og fylgjast með umfangsmikilli björgunar- og mengunarvarnaæfingu sem haldin er samhliða fundinum.
Frá aðalfundi samtakanna árið 2008
Norrænar strandgæslustofnanir stilla saman strengi
Á morgun munu forstjórar strandgæslna í Norrænu löndunum (Nordic Coast Guard Conference 2008) nota tækifærið og halda árlegan fund sinn um borð í norska varðskipinu Andenes sem staðsett er á Akureyri. Að samstarfinu Nordic Coast Guard Forum (NCGF) standa Íslendingar, Danir, Finnar, Norðmenn auk Svía, þ.e. yfirvöld í aðildarlöndunum sem annast landamæravörslu til sjávar, leit og björgun, viðbrögð við umhverfisslysum, fiskveiðigæslu og varnir og öryggismál til sjávar. Stjórn samtakanna er í höndum yfirmanna þeirra stofnana sem fara með þessi mál í löndunum. Samvinna norrænu þjóðanna á sviði strandgæslunnar fer sífellt vaxandi og eru þjóðirnar á einu máli um mikilvægi þess að vera í nánum tengslum, skiptast á upplýsingum og þekkingu, efla rannsóknir og öryggi í innlendum jafnt sem alþjóðlegum málaflokkum. Breytingar eru yfirvofandi á siglingaleiðum Norður Íshafsins og nauðsynlegt er að æfa sameiginleg viðbrögð við leit og björgun á svæðinu.
Fundinn sitja fyrir hönd Landhelgisgæslunnar Georg Kr. Lárusson, Halldór B. Nellett og Gylfi Geirsson, einnig verða fulltrúar danska flotans, norsku strandgæslunnar, finnsku landamæragæslunnar, auk sænsku strandgæslunnar. Arild-Inge Skram, forstjóri norsku strandgæslunnar mun á fundinum láta af formennsku í samtökunum en við tekur Judith Melin forstjóri sænsku strandgæslunnar.
Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar flytur erindi á verkefnafundi samtakanna í mars sl.
Aðalfundur strandgæslna og sjóherja tuttugu þjóða á N-Atlantshafi -
North Atlantic Coast Guard Forum Summit
Á miðvikudag hefst sem fyrr segir fundur North Atlantic Coast Guard Forum en fundinn sitja um 80 manns en Rússland, Bandaríkin og Kanada eiga aðild að samtökunum auk sautján Evrópuþjóða. Meðan á fundinum stendur fer fram umfangsmikil sameiginleg björgunar og mengunarvarnaæfing með aðkomu nokkurra þeirra þjóða sem standa að samtökunum.
Með formennsku samtakanna í höndum Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar hefur Ísland haft lykilhlutverki að gegna við að móta starfsemi samtakanna, stuðla að samræmingu milli aðila eftir því sem við á og koma á kerfi til upplýsingaskipta.
Fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, Ríkislögreglustjóra, Varnarmálastofnunar og Umhverfisstofnunar munu auk þess sitja fundinn og eru það stofnanir sem með einum eða öðrum hætti koma að þeim málefnum er til umræðu innan samtakanna. Stefnumál samtakanna eru unnin innan sjö vinnuhópa sem eru; öryggismál á hafinu, smygl eiturlyfja, ólöglegir innflytjendur, fiskveiðieftirlit, leit og björgun auk samvinnu á sviði tækni.
TF-GNÁ sækir sjúkling í skemmtiferðaskip. Myndasafn LHG
Skemmtiferðaskip rekst á grynningar á N-Atlantshafi - Handrit og þátttakendur æfingarinnar
Umfangsmikil björgunar- og mengunarvarnaæfingar hefst á miðvikudag í tengslum við aðalfund NACGF en handrit æfingarinnar gengur út á að stórt skemmtiferðaskip rekst á grynningar í Norður-Atlantshafi, í þessu tilviki Kolbeinsey. Ákveðið verður að koma öllum farþegum af skipinu í öryggisskyni og stærstum hluta áhafnar. Er því leitað til allra tiltækra skipa á svæðinu, þ.á.m. erlendra varðskipa sem stödd eru í nágrenninu. Vegna aðstæðna reka nokkrir björgunarbátar frá skipinu og hefst þá leit að þeim. Undirbúa þarf móttöku á öllum þessum mannfjölda í misjöfnu ásigkomulagi um borð í skipum sem koma á svæðið en jafnframt verður hafinn undirbúningur við móttöku skipbrotsmanna, hvar þau verða sett í land.
Í framhaldinu þarf að ná skipinu á flot og koma í veg fyrir að olía leki úr því og mengi fiskimið og valdi öðrum skaða. Sá hluti æfingarinnar verður framkvæmdur á öðrum degi hennar eða á fimmtudag.
Hluti æfingarinnar er svokölluð skrifborðsæfing þar sem samskipti verða höfð á milli björgunarstöðva við norðanvert Atlantshaf án þess þó að aðgerðir séu settar í gang en varðandi hluta hennar eru aðgerðir settar í gang og skip, loftför og björgunarsveitir framkvæma hluti sem þau fá fyrirmæli um frá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.
Meðal þátttakenda eru:
· Norskt varðskip.
· Danskt varðskip með þyrlu.
· Íslenskt varðskip.
· 3 björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
· Ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar.
· TF-SIF – eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar.
· Starfsmenn ýmissra stofnana og samtaka sem eru í áhöfn Samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð.
· Varðstjórar í Vaktstöð siglinga / Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar
· Starfsmenn Umhverfisstofnunar.
· Starfsmenn bandarísku strandgæslunnar sem aðstoða við að skipuleggja og halda utan um æfinguna.
· Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar við Eyjafjörð.
· Starfsmenn Carabbien Crusise Lines á Bretlandi sem munu sinna hlutverki sem skemmtiferðaskip og útgerð þess.
280909/HBS