Ferilvöktun með AIS kemur í stað STK þann 1. janúar 2011
Þriðjudagur 3. nóvember 2009
Breytingar eru hafnar á fyrirkomulagi vöktunar skipa og báta í fjareftirliti vaktstöðvar siglinga/stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar. Gert er ráð fyrir að eftir 1. janúar 2011 verði núverandi STK-kerfi (Racal-kerfi) alfarið lagt niður. STK kerfið er smíðað fyrir Ísland og hvergi í notkun annarsstaðar. Síðustu ár hefur reynst erfitt að útvega varahluti í gamla STK (Racal) kerfið og verður að gera ráð fyrir að ekki reynist unnt að gera við mörg STK tæki sem bila. Þess í stað verður tekin upp ferilvöktun með (AIS - Automatic Identification System) sem er búnaður með sambærilega virkni og gamla kerfið.
AIS byggir á alþjóðlegum staðli og er framleitt af fjölmörgum fyrirtækjum. Rekstraröryggi og gæði AIS kerfisins hefur reynst umtalsvert betra en gamla kerfisins. Eins og gefur að skilja má alls ekki slökkva á búnaðinum því þá fellur hann úr vöktun stöðvarinnar, með tilheyrandi leitar og björgunaraðgerðum í samræmi við reglugerð nr. 672/2006 .
Samgönguráðuneytið gaf út reglugerð nr. 565/2009 um breytingu á reglugerð nr. 672/2006 um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa. Með gildistöku reglugerðarinnar geta skip notað AIS til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu með sama hætti og í svokölluðum STK kerfi hingð til.
Samkvæmt evrópureglum verða skip yfir 15 metrum að lengd að notast við AIS-A tæki. Skipum undir 15 metrum verður heimilt að nota AIS-B tæki sem eru einfaldari að gerð og ódýrari, en hafa reynst ágætlega.
Nánar á heimasíðu Siglingastofnunar.