Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar rannsakar torkennilega hluti
Fimmtudagur 5. nóvember 2009
Sprengjudeild Landhelgisgæslunnar var í gær kölluð út til að kanna dufl sem barst á land í Skarðsfjöru við Skaftárdjúp. Við nánari athugun reyndist um að ræða rússneskt hlerunardufl en einnig fannst í fjörunni rússnesk siglingabauja ásamt hita- og seltumælir úr kafbát sem notaður er til að mæla seltu- og hljóðhraða í sjónum. Voru bæði duflin götuð til að þau sökkvi þegar þau berast að nýju til sjávar. Stafar því ekki af þeim hætta fyrir sjófarendur.
Sprengjudeildin var einnig kölluð út fyrr í vikunni þegar torkennilegur hlutur fannst á Reykjanesi. Við nánari athugun reyndist hluturinn vera óvirk sprengja frá seinni heimstyrjöldinni.