Skyndihjálparnámskeið hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar
Miðvikudagur 11. nóvember 2009
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa undanfarið setið skyndihjálparnámskeið í umsjón Marvins Ingólfssonar, sprengjusérfræðings hjá Landhelgisgæslunni, kafara og sjúkraflutningamanns með meiru. Marvin hlaut í haust réttindi til kennslu í skyndihjálp hjá Rauða Krossi Íslands og mun framvegis annast námskeiðin sem eru mismunandi samsett eftir störfum og deildum innan Landhelgisgæslunnar. Námskeiðunum lýkur með prófi og viðurkenningarskjali sem viðurkennt er af Rauða krossi Íslands og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.
Þekking starfsmanna Landhelgisgæslunnar á skyndihjálp er nauðsynlegur hluti af starfi þeirra. Að kunna rétt viðbrögð þegar kemur að óhöppum og vera til taks þegar á þarf að halda. Markmið námskeiðanna er að þátttakendur öðlist þekkingu og færni í að tryggja öryggi á slysstað, beita aðferðum skyndihjálpar ásamt því að greina einkenni algengra sjúkdóma og áverka. Ekki má heldur gleyma mikilvægi sálræns stuðnings á slysstað og eftir slys.
Hér má sjá nokkrar myndir frá námskeiðunum. Myndir Jón Páll Ásgeirsson og Hrafnhildur Brynja.
Hópur í verklegri æfingu utan dyra við lok námskeiðis. Fremst hægra megin
Andri Leifsson, háseti og Jónas Þorvaldsson, fagstjóri Köfunarsveitar,
vinstra megin Sigurður Ásgrímsson, deildarstjóri Sprengjudeildar.
Hilmar Æ. Þórarinsson, flugvirki og Tómas Vilhjálmsson, flugvirki æfa
fyrstu hjálp. Harpa Karlsdóttir, fulltrúi leikur hina slösuðu.
Már Þórarinsson, viðhaldsskipulagsstjóri æfir blástur með blástursgrímu
Martin Sövang, sprengjusérfræðingur æfir hjartahnoð.
Ragnar Ingólfsson, radíóflugvirki og Gunnar Thomas Guðnason umsjónarmaður lagers og innkaupa æfa hjartahnoð.
Marvin Ingólfsson leiðbeinir við notkun hjartastuðtækis.
Gunnar Örn Arnarson stýrimaður æfir rétt handtök við að leggja slasaðan
í hliðarlegu.