Olíuskip á siglingu undan Suðausturlandi með 106 þús. tonn af hráolíu

  • Urals_Star


Fimmtudagur 12. Nóvember 2009

Olíuskipið URALS STAR er nú á siglingu undan Suðausturlandi með 106 þúsund tonn af hráolíu innanborðs. Skipið stefnir 12 mílur suður af Dyrhólaey en skipið er á leið frá Murmansk til austurstrandar Bandaríkjanna með olíu til hreinsunar. Skipið tilkynnti ekki siglingu sína innan hafsvæðisins eins og lög og reglur gera ráð fyrir og hafði því Landhelgisgæslan samband við skipið kl. 15:10 í dag. Var skipið þá um 22 sjómílur SA-af Hrollaugseyjum. Olíuskipið URALS STAR er um 115.000 brúttótonn, 254 metrar að lengd og 44 metrar að breidd, með eins og fyrr segir 106.000 tonn af hráolíu innanborðs.


Var skipstjóri upplýstur um óskir Íslands um að öll skip á leið um lögsöguna upplýsi um ferðir sýnar, ekki síst skip af þessari stærð og með slíkan farm. Skipstjóra virtist ekki vera kunnugt um reglur þessar en vinnur nú í senda Landhelgisgæslunni nauðsynlegar upplýsingar.

Breytt heimsmynd ásamt hlýnun loftslags á norðurslóðum hefur þau áhrif að Landhelgisgæslan hefur orðið vör við mikla aukningu flutninga- og farþegaskipa á Norður Atlantshafi. Stærð þessara skipa fer sífellt vaxandi og er því nauðsynlegt að vera viðbúin óhöppum sem geta orðið á íslenska hafsvæðinu. Smíði varðskipsins Þórs er liður í þeim viðbúnaði enda þarf mikinn togkraft til að geta aðstoðað stór olíu- og flutningaskip sem lenda í óhöppum.  Þór er öflugt dráttarskip með 120 tonna togkraft sem sem er tvöfalt meiri en togkraftur en íslensku varðskipanna Ægis og Týs.

Grannt er fylgst með skipinu í eftirlitsbúnaði Landhelgisgæslunnar enda afar viðkvæmur farmur um borð sem myndi valda miklum skaða ef eitthvað færi úrskeiðis.

Myndir vesseltracking.com og  ships-info.info

Urals-Star-142370

URALS STAR