Danski sendiherrann kynnir sér starfsemi Landhelgisgæslunnar
Miðvikudagur 11. nóvember 2009
Søren Haslund, sendiherra Danmerkur kynnti sér í morgun starfsemi Landhelgisgæslunnar þegar hann ásamt eiginkonu sinni Karen Haslund og konsúl sendiráðsins, Lise Hafsteinsson kom í sína fyrstu heimsókn til Landhelgisgæslunnar en sendiherrann tók við stöðu sinni í septemberbyrjun. Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók á móti gestunum ásamt Halldóri B. Nellett, framkvæmdastjóra Aðgerðasviðs, Ásgrími L. Ásgrímssyni framkvæmdastjóra stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og Gylfa Geirssyni, forstöðumanni.
Helstu áherslur í starfsemi Landhelgisgæslunnar voru kynntar gestunum sem og mikið samstarf Landhelgisgæslunnar við danska flotann í gegn um tíðina. Fjallað var um starfssvið Landhelgisgæslunnar s.s. öryggis- og löggæslu, eftirlit, leit og björgun á íslenska hafsvæðinu, aðstoð við björgun og sjúkraflutninga á landi, sprengjueyðingu, sjómælingar og sjókortagerð. Einnig var fjallað um öflun, miðlun og greiningu gagna sem og alþjóðlegt samstarf á sviðum starfseminnar.
Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa um árabil átt í góðu samstarfi, einkum á sviði eftirlits- og öryggismála. Í janúar 2007 var undirritaður samningur um nánara samstarf milli Landhelgisgæslunnar og danska flotans er varðar leit, eftirlit og björgun á Norður- Atlantshafi og hefur samkomulagið styrkt samband þjóðanna á þessum sviðum. Samstarf Íslendinga og Dana er afar mikilvægt fyrir öryggi við Íslandsstrendur sem og vegna fyrirsjáanlegra breytingar á siglingaleiðum um Norður-Íshafið.
Thorben J. Lund, yfirstýrimaður, Walter Ehrat, flugrekstrarstjóri, Lise Hafsteinsson, konsúll sendiráðsins, Søren Haslund, sendiherra Danmerkur, Karen Haslund,
Georg Kr.Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Halldór B. Nellett,
framkvæmdastjóri Aðgerðasviðs.
Thorben J. Lund, yfirstýrimaður, Walter Ehrat, flugrekstrarstjóri, Søren Haslund, sendiherra Danmerkur, Lise Hafsteinsson, konsúll sendiráðsins,
Georg Kr.Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar og Karen Haslund,
Tekið á móti gestunum við flugskýli Landhelgisgæslunnar.
Sif, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar vakti athygli gestanna.