Eldur kom upp í fiskibát sem staddur var milli Hafna og Reykjanestáar

Laugardagur 21. nóvember kl. 14:20

Landhelgisgæslunni heyrði kl. 12:45 viðskipti á rás 16 þar sem kominn var upp eldur í vélarrúminu fiskibátsins Guðrúnar sem staddur var um 1 sjómílu suðvestur af Hafnabergi, mitt á milli Hafna og Reykjanestáar. Skipverjinn um borð í Guðrúnu hóf samstundis að slökkva eldinn með handslökkvitæki, einnig var óskað aðstoðar fjölveiðiskipsins Faxa sem staddur var á staðnum. Varðskip Landhelgisgæslunnar hélt samstundis áleiðis auk þess sem björgunarsveitir og slökkvilið í Sandgerði og Grindavík voru kallaðar út.

Skipverji um borð í Guðrúnu var kl. 12:51 búinn að slökkva eldinn, hafði tæmt sín slökkvitæki og fékk slökkvitæki til viðbótar frá Faxa. Var allt brunnið í sundur um borð og báturinn stjórnlaus. Var kl. 1320 komin taug á milli Guðrúnar og Faxa.

Faxi dregur nú Guðrúnu áleiðis til Sandgerðis. Telur Landhelgisgæslan mikla ástæðu til að hrósa öllum þeim sem komu að aðgerðinni fyrir skjót og fumlaus viðbrögð.

Fiskibáturinn Guðrún er 9 tonna og 10 metrar að lengd með einn mann um borð.

Er þetta önnur björgunaraðgerð sem Landhelgisgæslan tekur þátt í í dag en kl. 09:30 í morgun hafði skipstjóri lítils skemmtibáts samband í gegn um Neyðarlínuna og óskaði eftir aðstoða vegna vélarbilunar. Báturinn er staddur 10 sjómílur VNV frá Gróttu í góðu veðri og amaði ekkert að skipverjum.

Var björgunarskipið Ásgrímur S. Björnsson frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu kallað til aðstoðar og var báturinn kominn í tog kl. 11:49 og dró bátinn til hafnar þar sem  gúmmíbjörgunarbátur SVFL tók við honum.

 

NACGF_vardskip