Starfsmenn Landhelgisgæslunnar á námskeiði hjá Flugstoðum
Föstudagur 27. nóvember 2009
Varðstjórar og aðrir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem tengjast stjórnstöð hennar sátu námskeið hjá Flugstoðum í vikunni þar sem kynntir voru verkferlar sem viðhafðir eru gagnvart loftförum sem lent hafa í ýmsum tegundum flugatvika. Sum þessara flugatvika eru tilkynnt stjórnstöð Landhelgisgæslunnar þar sem þau eiga sér stað yfir sjó og þarfnast mismunandi viðbúnaðar Landhelgisgæslunnar.
Tvö námskeið hafa verið haldin í vikunni og voru allir aðilar sammála um gagnsemi þeirra og nauðsyn. Mikil og góð samvinna hefur verið á milli Flugstoða og Landhelgisgæslunnar um árabil. Þess má geta að Egill Þórðarson leiðbeinandi á námskeiðinu starfaði um árabil sem varðstjóri hjá Landhelgisgæslunni.