Erlent skip á rangri leið innan íslensku lögsögunnar
Miðvikudagur 2. desember 2009
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafði kl. 07:25 í morgun samband við flutningaskipið Nordana Teresa sem er 6500 tonn að þyngd og 115 metrar að lengd, á leið frá Rotterdam til Íslands. Í eftirlitskerfi stjórnstöðvar virtist skipið stefna á Þorlákshöfn en samkvæmt tilkynningu sem stjórnstöð hafði borist frá skipinu var skipið á leið til Reyðarfjarðar. Haft var samband við umboðsmann skipsins sem ekki vissi ástæðuna fyrir því að skipið væri á siglingu við Suðvesturland, skipið ætti að koma til Reyðarfjarðar í dag.
Haft var samband við skipið. Kom í ljós að áhöfn skipsins taldi Reykjavík vera Reyðarfjörð. Samstundis var stefnu skipsins breytt og er það nú á réttri leið til hafnar.
Sýnir þetta atvik nauðsyn fjareftirlits stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar og vakandi eftirfylgni vaktstjóra hennar en á hverjum sólarhring, yfir vetrarmánuðina eru á annað hundrað skip á siglingu innan íslenska hafsvæðisins en getur farið allt upp í áttahundruð skip yfir sumartímann.
Nordana Teresa
Mynd ©broders af vesseltracker.com