Báturinn dreginn til hafnar á Fáskrúðsfirði

  • NC2009_WEEK2_DOUG_ELSEY_PHOTO__104

Miðvikudagur 16. desember kl. 11:30.

Þann 16. desember kl. 07:38 barst tilkynning í gegn um ferilvöktunarkerfi vaktstöðvar siglinga um að bátur í námunda við Skrúð væri horfinn úr eftirlitskerfinu.

Hófu varðstjórar kl. 08:04 hefðbundnar aðgerðir sem felast í að endurræsa kerfi vaktstöðvarinnar, kalla upp bátinn á rás 16 og 9, hringja um borð og hafa samband við nærstadda báta.

Þegar náðist samband við tvo báta á svæðinu kl. 08:40 kom í ljós að þeir töldu sig hafa séð rautt ljós í námunda við Skrúð. Var allt tiltækt björgunarlið samstundis kallað út. Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Austurlandi voru kallaðar út og fóru þær á staðinn með björgunarskip, báta og kafara, þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út og haft samband við fleiri nærstadda báta á svæðinu og þeir beðnir að svipast um eftir bátnum.

Neyðarblys sást kl. 09:30 frá Vattanesi og kom fiskibátur að gúmmíbjörgunarbát kl. 09:35, einn maður var um borð í bátnum og var hann heill á húfi en hafði hann misst af félaga sínum en tveir menn voru um borð í bátnum sem saknað var. Kallaðir voru út kafarar á Austurlandi og einnig sótti Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar kafara á Höfn kl. 11:10.

Um kl. 14:00 var ákveðið að leit yrði hætt á sjó þar sem fimm fiskibátar ásamt bátum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, eða um 50 manns höfðu leitað frá því í morgun og var búið að fínkemba svæðið. Báturinn var dreginn frá Skrúð og kom að bryggju á Fáskrúðsfirði kl. 18:00.

Atvinnukafarar frá Landhelgisgæslunni og slökkviliðinu komu á staðinn síðdegis og köfuðu um borð í bátinn, fannst maðurinn látinn í vélarrúmi bátsins. Landhelgisgæslan annaðist aðgerðastjórn en Slysavarnafélagið Landsbjörg var með vettvangsstjórn aðgerðanna.