Gasflutningaskip siglir fyrir Vestfirði

26. desember 2009

Þrátt fyrir að engin íslensk fiskiskip séu á sjó um jólin eru tuttugu og níu erlend skip á siglingu um íslensku lögsöguna. Samkvæmt varðstjórum Landhelgisgæslunnar er þar á meðal er norska gasflutningaskipið ARCTIC PRINSESS sem er rúmlega 121 þús. brúttótonna og 288 metrar að lengd. Er það með stærri skipum sem siglt hafa hér við land. Skipið stefndi kl. 11:00 í morgun fyrir Vestfirði og sigldi með 16 sjómílna hraða. Verður skipið næst landi um  30 sml NV-af Straumnesi.

Skipið er á leið til Cove Point  USA með  146 þús. rúmmetra af metangasi og er væntanlegt þangað  þann 4. janúar. Haft var samband við skipið og það beðið um að senda Landhelgisgæslunni flutningsskýrslu ásamt upplýsingum um farm og eigin olíubirgðir en Arctic Princess er sérstaklega hannað til siglinga við Norður Noreg og á Norður Atlantshafi. Ekki hefur orðið vart við hafís á siglingaleið skipsins en á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að þann 18. desember var tilkynnt um ísspöng  um 50 sml norðvestur af Barða rak  hana í suðurátt. Voru sjófarendur beðnir um að fara að öllu með gát á svæðinu,  má því búast við minni jökum á stangli.

ArcticPrincess