Eftirlit Landhelgisgæslunnar með erlendum loðnuskipum á loðnumiðum djúpt austur af Dalatanga.

Sunnudagur 7. Febrúar 2010

Mikill erill hefur verið hjá Landhelgisgæslunni undanfarna daga vegna loðnuveiða Norðmanna djúpt undan Austfjörðum. Varðskip hefur verið við eftirlit á miðunum en gefinn var út loðnukvóti fyrir norsk skip upp á 28.431 tonn. Öll norsku skipin hættu veiðum á sunnudag og tilkynntu þau alls 27.745 tonna afla.

Norsku skipin byrjuðu að streyma á miðin 2. febrúar en af 79 skipum sem höfðu veiðileyfi komu 31 skip til veiða. Alls var 25 skipum leyft að veiða í einu og voru því 6 skip á biðlista þar til önnur skip voru búinn að veiða og farin annað hvort til Íslands eða Noregs til löndunar.

Að morgni föstudagsins 5. febrúar kom fyrsta skipið í athugunarstöð varðskipsins og eftir daginn voru sex skip athuguð af landhelgisgæslumönnum. Daginn eftir komu alls tólf skip í athugunarstöðina, það fyrsta um miðnætti og síðasta skipið um miðnætti sólarhring síðar.

Veiði skipanna lá niðri yfir daginn, en gaus upp þegar rökkva tók og var því álagið mikið þegar skipin fylltu sig nánast á sama tíma. Kallaði varðskipið til norsku skipanna tilkynningu þegar 4200 tonn voru eftir af kvóta þeirra og fékk senda kvittun þeirra fyrir að hafa móttekið upplýsingarnar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar landhelgisgæslumenn voru við eftirlit í SVANAUG ELISE og VENDLA.

TYR_lodnuveidar1
Heimir Týr Svavarsson háseti , Gunnar Páll Baldursson 3 stýrimaður ásamt Olav Hendriksen skipstjóri á SVANAAUG ELISE.

TYR_lodnuveidar2
Varðskipið TÝR ásamt norska loðnuskipinu RAV sem var að bíða í athugunarstöð eftir landhelgisgæslumönnum.

TYR_lodnuveidar4
Pálmi Jónsson yfirstýrimaður mælir  rúmmál loðnu í lest SVANAAUG ELISE

TYR_lodnuveidar3
Pálmi Jónsson yfirstýrimaður útskýrir eftirlitsgögn fyrir Ole Morten Troland skipstjóra á norska loðnuskipinu VENDLA, Heimir Týr Svavarsson háseti fylgist með.