Tvö útköll á sunnudagsmorgun

  • TF-LIF-140604

Sunnudagur 21. febrúar 2010

Landhelgisgæslunni bárust á sunnudagsmorgun tvö útköll með stuttu millibili. Kl. 10:46 barst beiðni frá Neyðarlínunni um þyrlu vegna sjúklings með alvarleg brunasár eftir húsbruna í Stykkishólmi. TF-Líf fór í loftið frá Reykjavík kl. 11:14 og var lent á íþróttavellinum í Stykkishólmi kl. 11:45 þar sem sjúkrabíll beið með sjúklinginn. Var hann fluttur um borð í þyrluna og undirbúinn undir flug. Fór þyrlan að nýju í loftið kl. 12:05 og lent var við Landspítalann í Fossvogi kl. 12:32.

Seinna útkallið var sent út kl. 11:05 þegar fiskibátur hafði samband við Landhelgisgæsluna. Var hann vélarvana NV-af Viðey og vantaði aðstoð strax, óttast var að hann myndi reka að eynni. Tveir menn voru um borð í bátnum. Landhelgisgæslan kallaði strax út björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Ásgrím S. Björnsson í Reykjavík og Gróu Pétursdóttur frá Seltjarnarnesi.

Ásgrímur S. Björnsson tilkynnti kl 1146, eða 41 mínútu eftir útkall að þeir væru komnir með bátinn í tog. Dró hann síðan bátinn til hafnar í Reykjavík, Gróa Pétursdóttir fylgdi og aðstoðaði við að koma bátnum að bryggju. Veður var nokkuð hvasst, NNA 12-17 m/s, en aðgerðin gekk vel.