Samband náðist við starfsmenn Landhelgisgæslunnar í Chile - eiga bókað flug á mánudag

Sunnudagur 28. Febrúar kl. 23:15

Nýjar fréttir voru að berast frá Chile í gegnum Danmörku. Stuttu eftir kvöldmat tókst að ná símasambandi við einn Dananna sem starfar á vegum Landhelgisgæslunnar við skipasmíðina í Chile og koma til hans upplýsingum um flugáætlanir Unnþórs Torfasonar og Ragnars Ingólfssonar. Nú rétt í þessu náðist aftur samband við þennan sama aðila og var hann þá staddur í skipasmíðastöðinni.  Hafði hann þá náð tali af Unnþóri og gat komið til hans upplýsingum um flugið sem þeir Unnþór og Ragnar eiga pantað frá Concepcion á morgun.  Enn er mjög stopult símasamband en þó tókst Ragnari að senda SMS á eiginkonu sína og starfsmann Landhelgisgæslunnar á Íslandi til að láta vita að það væri í lagi með þá félaga.   

 Kom fram hjá Dananum að skipasmíðastöðin er mjög illa farin og gríðarlegar skemmdir eru á svæðinu.  Svo virðist sem sjór hafi horfið úr höfninni við skjálftann en svo komið aftur með flóðbylgju sem var 2,5 metrar á hæð og setti allt á flot.  Þurrkvíin þar sem Þór er, fylltist af sjó og svo virðist sem varðskipið hafi lyfst upp og svo skollið niður aftur.  Liggur það nú í þurrkvínni með ca. 30 gráðu halla og flýtur ekki heldur situr á búkkunum sem voru undir kjöl skipsins.  Sjór hefur að öllum líkindum farið inn í dælu- og vélarými og því ljóst að skipið er töluvert skemmt þó ekki sé hægt að meta umfang skemmdanna að svo komnu máli.