TF-SIF er nú á flugi yfir gossvæðinu - búnaður vélarinnar nýttur til að meta aðstæður
Sunnudagur 21. mars 2010
Nú fyrir stuttu eða kl. 20:15 í kvöld tók eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF á loft frá Reykjavíkurflugvelli áleiðis að gossvæðinu milli Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls. Með í för eru Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Haraldur Johannesen, ríkislögreglustjóri og Jón Bjartmars yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. Þá eru um borð jarðvísindamennirnir Magnús Tumi Guðmundsson, Þórdís Högnadóttir, Björn Oddsson og Haraldur Sigurðsson og Sigurlaug Hjartardóttir og Steinunn Jakobsdóttir frá Veðurstofu Íslands.
Tilgangur ferðarinnar er að meta aðstæður svo unnt sé að taka ákvörðun um framhaldið. Notkunarmöguleikar flugvélarinnar á sviði almannavarna eru gríðarlegir þar sem unnt er að greina breytingar á landslagi svo sem hæðarlínur í jöklum, eldfjöllum og snjóalögum með búnaði vélarinnar. Í leiðangrinum verður eftirlits- og leitarratsjá beint að svæðinu og mun hún teikna upp útlínur sprungunnar og gosstrókanna til að mæla hvort breytingar hafi orðið á yfirborði svæðisins frá flugi TF-Sifjar í morgun.
Einnig verður hitamyndavél sem og annar búnaður í vélinni nýttur til að afla upplýsingar sem samhæfðar eru í tölvukerfi sem kallast MMS (Mission Managment System) en það aðstoðar við úrvinnslu og samhæfingu þeirra gagna sem safnað er. Verður unnt að endurspila allt upptekið efni af ratsjám og myndavélum auk fjarskipta meðan á flugi stendur eða að því loknu.
Georg lýsir hvernig ratsjá og annar búnaður flugvélarinnar nýtist í fluginu
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur ræðir við
Georg Kr. Lárusson forstjóra Landhelgisgæslunnar
Ragna Árnadótti, dómsmálaráðherra á spjalli við Harald Johannessen,
ríkislögreglustjóra og Jón Bjartmars frá ríkislögreglustjóra
Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður og Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur bera
saman bækur sínar
Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar á tali við Harald Johannessen
ríkislögreglustjóra. Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra spjallar við
Jón Bjartmars yfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóra.
Benóný Ásgrímsson flugstjóri í ferðinni fer yfir skipulag ferðarinnar
Halldór Nellett framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og
Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður skoða veðuraðstæður fyrir flugið
Gestir gera sig tilbúna fyrir brottför
Starfsmenn Jarðvísindastofnunar og Veðurstofu Íslands
Gestir bíða eftir að vera kallaðir um borð
Friðrik yfirstýrimaður tilkynnir að allt er tilbúið fyrir brottför