Línubátur strandar við Héðinshöfða á Skjálfanda

  • Hedinshofdi

Föstudagur 26. mars 2010


Vaktstjórar stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fengu kl. 01:56 aðstoðarbeiðni á rás 16 frá línubát sem strandaður var við Héðinshöfða, um 3 sjómílur norður af Húsavík. Tveir menn voru um borð í bátnum og sakaði þá ekki. Enginn leki virtist kominn að bátnum. Samstundis voru tveir nærstaddir línubátar kallaðir til aðstoðar, Karolína og Háey II sem héldu á strandstaðinn. Einnig var björgunarsveit Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Húsavík kölluð út. Auk þess var bakvakt SL og lögreglu gert viðvart.

Línubáturinn Karolína var komin á staðinn um 30 mín síðar. Erfiðlega gekk að koma taug á milli skipa þar sem ekki voru nógu löng dráttartóg tiltæk. Búið var að koma bráðabirgðataug á milli björgunarbáts og línubátsins kl. kl.05:40, um hálftíma síðar eða klukkan 06:04 var kominn leki að bátnum.

Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Sigurvin frá Siglufirði tilkynnti kl. 07:10 að hann eigi eftir 30 mínútur að strandstaðnum. Var hann tilbúinn með dælu á dekki. Var þá komið gott dráttartóg á staðinn og unnið að því að koma henni yfir í línubátinn frá Háey II. og. Sigurvin var kominn á strandstaðinn kl. 07:39 og um klukkustund síðar var dæling hafin um borð í línubátnum. Var þá STK tæki bátsins dottið út. Gerðar voru tilraunir til að draga bátinn af strandstað en kl. 10:50 hafði það ekki borið árangur. Að loknum stöðufundi verður ákvörðun tekin um framhaldið en flóð verður á svæðinu um kl. 20:00 í kvöld.

Mynd af Héðinshöfða og Lundey er fengin á vefnum www.nordausturland.is/