Flugvél og þyrla Landhelgisgæslunnar fljúga að gosstöðvunum og safna gögnum fyrir viðbragðsaðila
Föstudagur 16. Apríl 2010
Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF lenti í Reykjavík kl. 1830 eftir að hafa flogið yfir Eyjafjallajökul. Voru aðstæður á gossvæðinu kannaðar og gögnum safnað með ratsjár-og hitamyndum. Kom í ljós að litlar breytingar hafa orðið á svæðinu, aðrar en þær að ásjóna gíganna í eldstöðinni er orðin afmynduð. Gígarnir hafa stækkað talsvert. Einnig eru komin ný göt í Gígjökul þar sem vatn hefur runnið undir honum og fellt „þakið“. Lónið neðan Gígjökuls er horfið eins og sást í gær, og engin fyrirstaða fyrir hlaupin úr honum eftir. Við athugun á framburði Markarfljóts kom í ljós að hann leitar að mestu til austurs. Nær hann lengst á 019°25´V og um 2 sjómílur. frá strönd.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR flaug að Eyjafjallajökli um kl. 19:30. Þegar komið var að jöklinum var búið að taka af megnið af skýjahulunni og sást vel í gosmökkin, var örlítið skýjateppi sem huldi gosstöðina sjálfa.
Mynd Árni Sæberg
Mynd Árni Sæberg
Goskatlar Eyjafjallajökuls
Svartir gosmekkir rísa hátt, u.þ.b. 30000 fet.