Varðskipið Ægir siglir til Senegal með hluti til stuðnings ABC barnahjálp
Föstudagur 16. apríl 2010
Næstkomandi þriðjudag 20. apríl siglir varðskip Landhelgisgæslunnar til Senegal þar sem skipið mun sinna verkefnum fyrir landamærastofnun Evrópusambandsins. Ákveðið var að að bjóða ABC barnahjálp að senda með skipinu dót fyrir skóla sem samtökin reka í Dakar. ABC barnahjálp tók afar vel í boð Landhelgisgæslunnar og fékk sendan lista yfir þá hluti sem skólinn þarfnast mest, í framhaldinu var leitað til einstaklinga sem og fyrirtækja með stuðning til verkefnisins. Í dag, föstudag var tekið á móti hlutunum í Nytjamarkaðnum Skútuvogi 11.
Á heimasíðu ABC barnahjálpar segir að í höfuðborg Senegal, Dakar, sé mikill fjöldi götubarna sem betla pening. Stór hluti þessara barna eru fórnarlömb barnaræningja. Þau hafa verið tæld frá fátækum foreldrum sem búa í sveitaþorpum í nágrannaríkinu Guinea Bissau. Þeim hefur verið lofað menntun og góðu lífi en í stað þess eru þau barin, rekin á göturnar og látin betla pening. Þau búa við ömurlegar aðstæður og hafa enga möguleika á því að komast heim aftur þar sem þau eru réttindalaus og vegabréfslaus. Starfsemi ABC barnahjálpar í Dakar í Senegal felst í eftirfarandi, forskóla og 1. bekk grunnskóla. Stuðningur við börn í grunnskóla sem ekki er rekinn af ABC. Athvarf fyrir götubörn. knattspyrnuskóli fyrir fátæka drengi í hverfinu.
Mynd JPA