Mikið annríki í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna strandveiðanna

Miðvikudagur 12. maí 2010

Strandveiðar hófust á mánudag af fullum krafti og eru um 700 íslensk skip og bátar í fjareftirliti Landhelgisgæslu Íslands sem er um tvöfalt fleiri íslensk skip en að jafnaði eru á sjó í einu. Mikið álag er á þremur varðstjórum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar sem eru á vaktinni og fylgjast með umferðinni, svara fyrirspurnum og taka á móti tilkynningum um ferðir flotans.

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hafa 375 bátar fengið leyfi til strandveiða en á heimasíðu þeirra segir að á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst sé heimilt að veiða á handfæri allt að 6.000 lestir af óslægðum botnfiski. Öllum fiskiskipum er frjálst að sækja um leyfi til veiðanna. Fái fiskiskip leyfi til strandveiða, falla úr gildi önnur veiðileyfi sem skipið kann að hafa innan íslenskrar lögsögu út gildandi fiskveiðiár.

Skilyrði fyrir leyfi til strandveiða eru:

Ekki er heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og á lögbundnum frídögum.

Veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klst. og eingöngu er heimilt að fara í eina veiðiferð á sólarhring.

Skipstjóri skal tilkynna um upphaf og lok veiðiferðar til Landhelgisgæslunnar. Skylda er að vera með sjálfvirkan staðsetningarbúnað um borð.

Hámarksfjöldi handfærarúlla um borð eru 4 og ekki er heimilt að hafa önnur veiðarfæri um borð.

Eingöngu er heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og skal öllum afla landað í lok veiðiferðar og hann vigtaður endanlega á Íslandi. Þorskígildi miðast við slægðan fisk.

Nánar á heimasíðu Fiskistofu www.fiskistofa.is