Tveir bátar í vandræðum vestur af landinu

Laugardagur 29. maí 2010

Landhelgisgæslan óskaði á föstudagskvöld eftir aðstoð nærstaddra báta og björgunarskipa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar eftir að tveir bátar lentu í vandræðum vestur af landinu.

Leit hófst kl. 23:04 að frístundafiskveiðiskipinu Bobby sem dottið hafði úr sjálfvirku tilkynningaskyldunni um 2 sml NV af Deild. Báturinn svaraði ekki uppköllum frá varðstjórum Landhelgisgæslunnar og var því óskað eftir útkalli á björgunarbáta Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Ísafirði, Bolungarvík og Suðureyri. Báturinn kom að nýju inn í tilkynningaskyldukerfið kl. 23:50 en ekkert samband náðist við bátinn. Var því sendur til hans harðbotna björgunarbátur SL frá Suðureyri og fylgdi hann bátnum til hafnar.

Á sama tíma eða kl. 23:36 óskaði fiskibátur sem staddur var 2,7sml VSV af Kópanesi eftir aðstoð þar sem öxull fór úr sambandi og var báturinn á reki. Fiskibáturinn Selma Dröfn fór frá Bíldudal til að sækja hann en á svæðinu var norðurfall og blíðuveður. Selma Dröfn var komin að bátnum kl. 01:14 og tók hann í tog. Voru bátarnir komnir til Patreksfjarðar kl. 03:00.