TF-GNÁ sækir skipverja af þýska togaranum Kiel

  • KIEL_012

Sunnudagur30. maí 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 19:55 með skipverja af þýska togaranum Kiel sem var að veiðum við A-Grænland eða um 480 sml frá Garðskaga þegar skipverjinn fékk slæman brjóstverk síðdegis á laugardag. Hafði íslenskur skipstjóri Kiel þá samband við sjóbjörgunarstöðina MRCC Grönnedal á Grænlandi, sem ekki hafði tök á að senda aðstoð vegna slæms veðurs á svæðinu og var þeim vísað á Landhelgisgæsluna.

KIEL_011
Þýski togarinn Kiel. Mynd áhöfn TF-GNA.

Þar sem langdrægi þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar er 150 sml var skipstjóri beðinn um að halda af stað í átt til Íslands og myndi þyrla Landhelgisgæslunnar sækja sjúklinginn þegar skipið væri 150sml frá Garðskaga. Var skipstjóri í reglulegu sambandi við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og þyrlulækni meðan skipið sigldi til móts við þyrluna.

TF-GNA fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli kl. 16:51 og var komin að togaranum kl. 18:08. Sigu stýrimaður ásamt lækni um borð í togarann þar sem sjúklingur var undirbúinn fyrir flutning. Var sjúklingur kominn um borð í TF-GNA kl. 18:25. Var sjúklingur stöðugur í flutningi en sem fyrr segir lenti þyrlan við Landspítalann kl. 19:55.

Þess má geta að á tímabili var ráðgert að fá danska eftirlitsskipið Vædderen, sem er í Reykjavík, til að fara til móts við skipið en eftir samráð við hjartasérfræðing var hætt við það.

Þýski togarinn Kiel er gerður út af Deutsche Fishfang Union GmbH í Þýskalandi, dótturfélagi Samherja hf.