TF-SIF flýgur til Grikklands í landamæraeftirlit
Mánudagur 31. maí 2010
TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar flaug í morgun áleiðis til Lesvos í Grikklandi þar sem flugvélin mun næstu vikur sinna landamæraeftirliti á Eyjahafi milli Grikklands og Tyrklands. Verkefnið er unnið á vegum Frontex landamærastofnunar Evrópusambandsins en Ísland er aðili að samstarfinu í gegnum Schengen. Átta starfsmenn Landhelgisgæslunnar, flugmenn, stýrimenn og flugvirkjar fylgja vélinni en verkefnið gerði Landhelgisgæslunni kleift að endurráða tímabundið þrjá flugmenn sem hlutu uppsögn á haustmánuðum 2009. TF-SIF er væntanleg aftur til Íslands í byrjun júlí.
Varðskipið Ægir hefur sinnt sama verkefni frá byrjun maí við strendur Senegal og hefur það gengið vel. Aðgerðasvæðið breytist á næstu vikum en þá mun varðskipið sigla í Miðjarðarhafið og sinna áframhaldandi eftirliti.
Eru starfsmenn Landhelgisgæslunnar með verkefninu að fara í gegnum heilmikla og verðmæta þjálfun sem mun án efa koma sér vel í framtíðinni.
Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar kveður áhöfn TF-SIF.
F.v. Ragnar Ingólfsson flugvirki, Benóný Ásgrímsson, flugstjóri, Marion Herrera,
flugmaður, Auðunn F. Kristinsson, stýrimaður og Vilhjálmur Óli Valsson,
stýrimaður.

Jónas Ágústsson, aðstoðarmaður og Sigurjón Sigurgeirsson gera klárt
fyrir brottför.
TF-SIF tekur á loft frá Reykjavíkurflugvelli