Þyrla danska varðskipsins Vædderen sækir alvarlega sjúkan skipverja

  • lynx_has-3_mk8

Þriðjudagur 1. júní 2010

Þyrla danska varðskipsins Vædderen lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 11:24 með alvarlega veikan skipverja af portúgalska togaranum Coimbra sem staddur var að veiðum á Reykjaneshrygg eða 220 sml. SV af Reykjanesi. Landhelgisgæslan óskaði eftir aðstoð dönsku þyrlunnar þar sem um mjög alvarleg veikindi var að ræða, yrðu þeir fljótari en þyrla Landhelgisgæslunnar að koma manninum undir læknishendur. Fór þyrlan í loftið frá Vædderen kl. 08:23 þegar 110 sjómílur voru í portúgalska togarann. Var skipverjinn hífður um borð í þyrluna þegar togarinn var staddur um 165 sml. VSV af Reykjanesi. Á leiðinni til lands eða kl. 10:30 tók þyrlan eldsneyti um borð í Vædderen sem þá var staddur 80 sjómílur VSV af Garðskaga, lenti þyrlan í Reykjavík 1 klst. síðar. Að loknu verkefni snéri þyrlan tilbaka í danska varðskipið Vædderen sem er á leið til eftirlits við Grænland.

Sjóbjörgunarmiðstöðin í Lissabon í Portugal hafði samband við Landhelgisgæslunnar kl. 01:19 í nótt og sagði alvarlega veikan mann vera um borð í togaranum Coimbra. Var togarinn búinn að vera í sambandi við lækni í Portúgal sem sagði manninn verða að komast undir læknishendur innan 12 klst. Eftir samráð við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar var hann sammála portúgölskum kollega sínum, ekki mætti bíða með að ná í manninn. Haft var samband við danska varðskipið Vædderen kl. 02:40 og varð niðurstaðan sú að þyrla Vædderen yrði fyrr komin að skipinu en þyrla Landhelgisgæslunnar, myndi þar muna um 2 klukkustundum sem öllu máli skiptir fyrir ástand mannsins.

Þess má geta að þremur köfurum Landhelgisgæslunnar frá  varðskipinu Tý tókst þann 1. maí síðastliðinn að losa veiðarfæri úr skrúfu Coimbra sem þá var staddur á Reykjaneshrygg eða
um 240 sjómílur frá Reykjanesi.


Vaedderen_Akureyr58

Vaedderen_16012008_Flugdeild_1

Vædderen, út myndasafni.