Útkall þyrlu eftir slys í Látrabjargi

Miðvikudagur 9. júní 2010

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ var kölluð út kl. 16:40 í dag eftir tilkynning barst frá Neyðarlínunni um þýskan ferðamann sem féll fram af Látrabjargi. TF-GNÁ fór í loftið um kl. 17:15 með þrjá undanfara Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Flogið var beint á staðinn og beið þyrlan átekta á bjarginu meðan björgunarsveitarmenn unnu að því að ná manninum.

Um kl. 19:30 tókst björgunarsveitarmönnum að ná manninum úr fjörunni og var hann fluttur á slöngubáti yfir í björgunarskipið Vörð frá Patreksfirði. Var maðurinn úrskurðaður látinn. Var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur þar sem lent var á Reykjavíkurflugvelli kl. 21:00.