Mikið annríki hjá þyrluáhöfn

  • Lif1

Mikið annríki var í gærkvöld og nótt hjá Landhelgisgæslunni en þrisvar sinnum var beðið um útkall á þyrlu til að sinna aðkallandi sjúkraflutningum. Var nóttin óvenju annasöm.

Fyrsta útkallið kom rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi og var það vegna sjómanns með bólgur í munnholi. Sjómaðurinn var um borð í norskum togara sem staddur var um 175 sjómílur norðvestur af Reykjavík. Þyrlan TF-LÍF lenti með sjúklinginn á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 23:30 í gærkvöldi.

Um það leyti sem þyrlan var að lenda í Reykjavík höfðu stjórnstöð Landhelgisgæslunnar borist tvær aðrar beiðnir um útkall. Önnur var vegna manns sem fengið hafði heilablóðfall í Öræfum og hin vegna sjómanns sem slasaðist þegar hann féll um borð í bát sem liggur við bryggju í Grímsey.

Þyrlan tók á loft að nýju laust fyrir miðnætti og sótti manninn klukkutíma síðar skammt frá Kirkjubæjarklaustri, en sjúkrabíll keyrði til móts við þyrluna sem lenti við Landspítalann um tvöleytið. Tæp klukkustund leið þar til þyrlan lagði af stað til Grímseyjar og lenti hún um sjöleytið í morgun í Reykjavík.